Innlent

„Land­risið er hægara en það hefur verið“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Þorvaldur fór yfir málin í Kvöldfréttum Stöðvar 2.
Þorvaldur fór yfir málin í Kvöldfréttum Stöðvar 2. Vísir

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir ólíklegt að gosið við Sundhnjúka nái sér upp aftur. Hann segir landris sem mælst hefur vera hægara en það hefur áður verið.

Eldfjallafræðingurinn Þorvaldur Þórðarson mætti til Sindra Sindrasonar í Kvöldfréttatíma Stöðvar 2 til að ræða eldgosið við Sundhnjúka. Hann segir að gosið sem hófst 29.  maí virðist vera að deyja út.

„Það virðist vera að draga mjög mikið úr því. Seinni partinn í dag hefur í raun og veru verið mjög lítil virkni í gígnum. Ég held þetta sé í andarslitrunum og mér finnst ólíklegt að þetta nái sér upp aftur.“

„Landrisið núna er hægara en það hefur verið. Það er svona um 1,3-1,4 millimetrar á dag og til þess að ná þeirri hæð sem við teljum að það þurfi til að það verði gos þá þarf það svona rúma þrjá mánuði. Þá erum við komin inn í haustið.“

Þorvaldur segir að sömuleiðis sé að draga úr flæði úr svokallaðri neðri kvikugeymslu sem flytur kviku í annað hólf sem liggur grynnra í jarðskorpunni.

„Svo er líka að draga úr flæðinu úr þessari neðri kvikugeymslu á 9-12 kílómetra dýpi, það hefur verið jafnt og þétt að draga úr flæðinu úr því og inn í þetta grynnra geymsluhólf sem er á 4-5 kílómetra dýpi.“

„Nú er bara eins og keppni, hvenær dettur flæðið úr neðra geymsluhólfinu nægilega langt niður þannig að þetta bara stoppi. Ef það gerist áður en við náum þessum mörkum sem við þurfum í grynnra hólfið til að kvikan komist út úr því, þá stoppar þetta allt saman.“

Hann segir það góðar fréttir fyrir Grindvíkinga að kvikuflæðið úr neðra geymsluhólfinu virðist vera að minnka.

„Þetta á bara við um Sundhnjúkareinina sem hefur verið virk núna undanfarið. Ef hún stöðvast þá eru það góðar fréttir fyrir Grindvíkinga og í Svartsengi. Virknin mun færast yfir í einhverja aðra gosrein en hún er lengra í burtu.“

Allt viðtalið við Þorvald má sjá í spilaranum hér fyrir neðan þar sem hann fer meðal annars yfir aðra staði sem gætu tekið við ef virkni dettur niður við Sundhnjúka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×