Upp­gjör: Valur - FH 3-1 | Meistararnir jafna topp­liðið að stigum

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Valskonur fagna.
Valskonur fagna. Vísir/Anton Brink

Síðasti leikur 9. umferðar Bestu deildar kvenna fór fram í kvöld að Hlíðarenda. Þar mættu FH-ingar heimakonum í Val. Valskonur unnu leikinn nokkuð þægilega 3-1 þrátt fyrir að FH hafi átt fínar rispur í leiknum.

Heimakonur hófu leikinn af miklum krafti og eftir aðeins tvær mínútur var Katie Cousins komin í dauðafæri eftir fyrirgjöf Amöndu Andradóttur.

FH-ingar virtust ekki vera mættir til leiks fyrstu tíu mínútur leiksins. Það fengu þær í bakið á fimmtu mínútu þegar Amanda Andradóttir fékk sendingu inn fyrir vörn FH eftir að Katie Cousins hafði unnið boltann ofarlega á vellinum. Amanda var í engum vandræðum með að klára færið og staðan orðin 1-0.

Amanda Andradóttir sýndi sínar bestu hliðar í kvöld.Vísir/Anton Brink

Eftir þessa byrjun róaðist leikurinn töluvert og FH-ingar komu sér betur inn í leikinn. FH fékk heilar sex hornspyrnur í fyrri hálfleiknum en náðu aldrei að gera sér mat úr þeim stöðum.

Valskonur sköpuðu sér nokkur fín færi fram að hálfleik, en staðan var þó 1-0 í hálfleik.

FH byrjuðu síðari hálfleikinn betur. Það voru þó heimakonur sem juku forystu sína á 58. mínútu leiksins. Kom markið úr vítaspyrnu sem Amanda tók en Aldís Guðmundsdóttir, markvörður FH, hafði brotið á Berglindi Rós Ágústsdóttur og vítaspyrna því dæmd.

Tólf mínútum síðar gengu heimakonur frá leiknum þegar Jasmín Erla Ingadóttir skoraði eftir að boltinn féll fyrir fætur hennar inn í teignum eftir fyrirgjöf Fanndísar Friðriksdóttur.

Jasmín Erla skoraði þriðja mark Vals.Vísir/Anton Brink

FH skoraði sárabótamark af dýrari gerðinni með lokaspyrnu leiksins. Ída Marín Hermannsdóttir hamraði þá boltanum upp í skeytin af um 25 metra færi, óverjandi.

Lokatölur 3-1, eins og fyrr segir. Valskonur hafa þar með jafnað Breiðablik að stigum á toppi deildarinnar, en bæði lið eru með 24 stig eftir níu leiki.

Atvik leiksins

2-0 markið hjá Val drap leikinn að ákveðnu leyti. FH hafði byrjað síðari hálfleikinn betur og voru til alls líklegar. Vítaspyrnudómurinn og markið í kjölfarið slökkti neistann í FH og Valskonur nýttu það með því að skora þriðja mark leiksins.

Aldís Guðmundsdóttir, markvörður FH, fékk á sig vítaspyrnu.Vísir/Anton Brink

Stjörnur og skúrkar

Amanda Andradóttir og Katie Cousins eru tvær af allra bestu leikmönnum deildarinnar og þær sýndu það báðar í kvöld. Amanda átti þó helling inni í kvöld, en það sýnir kannski bara hversu góður leikmaður hún er.Vísir/Anton Brink

FH liðið fyrstu tíu mínúturnar var skúrkurinn að þessu sinni. Grófu sér holu í byrjun leiks með því að fá á sig mark á fimmtu mínútu gegn einu af tveimur bestu liðum landsins. Erfið byrjun.

Dómarar

Jóhann Ingi Jónsson og hans teymi voru með allt upp á tíu í dag. Engir vafadómar og öll spjöld áttu fyllilega rétt á sér. Þriðja liðið fer sátt á koddann í kvöld.Vísir/Anton Brink

Stemning og umgjörð

Umgjörðin hjá Val er ein sú allra besta á landinu og var engin breyting á því í kvöld. Aðsóknin á völlinn var fín í kvöld þrátt fyrir að margt hafi verið í gangi sem hafði pottþétt áhrif á aðsókn. T.d. eru margir af yngri iðkendum Vals og FH að spila á ÓB-mótinu á Sauðárkróki sem og á Norðurálsmótinu á Akranesi og áttu því ekki heimangengt á Hlíðarenda í kvöld.

Mér fannst þetta bara skemmtilegur leikur

„Mér fannst frammistaðan ágæt. Mér fannst þetta hörku leikur, tempó leikur. FH er gott lið og erfitt að vinna þær og ég er bara sáttur með það að skora þrjú mörk og vinna leikinn,“ sagði Pétur Pétursson, þjálfari Vals, að leik loknum.Vísir/Anton Brink

Aðspurður hvort það hafi ekki verið svekkjandi að bæta við mörkum í upphafi leiks þegar Valsliðið herjaði stíft að værukæru FH-liði, þá hafði Pétur þetta að segja.

„Jú jú, við svo sem fengum fullt af tækifærum til þess að bæta við þessi mörk en eins og ég segi þá er erfitt að spila á móti FH. FH er með gott lið og þær sköpuðu sér líka helling, þannig að mér fannst þetta bara skemmtilegur leikur í Bestu deild kvenna.“

„Mér fannst við svona koma betur út í seinni hálfleikinn og spiluðum boltanum betur á milli okkar og náðum í okkar færi, en þær gerðu það sama líka. Eins og ég segi, þá var þetta bara hörku leikur tveggja góðra liða í dag,“ sagði Pétur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira