Íslenski boltinn

Davíð segir Fylkismenn hafa beitt kynþáttaníði: „Rasísk um­mæli í garð minna leik­manna“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, vildi ekki eiga nein frekari ummæli um málið. 
Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, vildi ekki eiga nein frekari ummæli um málið.  Vísir/Pawel

Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, var sársvekktur eftir 3-2 tap gegn Fylki í kvöld. Niðurstaða leiksins átti hlut að máli en aðrir, verri hlutir vógu þyngra. Hann segir leikmenn Fylkis hafa beitt sína menn kynþáttaníði. 

„Virkilega svekkjandi en mér fannst samt lengst af í leiknum við vera við stjórn. Nema á þessum kafla sem við fáum á okkur þessi mörk. Þessi tvö mörk þarna sérstaklega sem við fáum á okkur með alltof stuttu millibili. Bara svekkjandi, gríðarlega.“

Rasísk ummæli í garð leikmanna Vestra

Það er ýmislegt jákvætt sem Davíð gat séð í spilamennsku sinna manna en hann segir leikinn hafa litast af allt öðru. Rasísk ummæli í garð sinna leikmanna og ljót ummæli beind að honum sitja eftir.

„Það eru hlutir sem gerast hérna í dag fyrir utan fótboltann sem sitja í manni. Ummæli frá leikmönnum Fylkis, rasísk ummæli í garð minna leikmanna, sem ég er ekki sáttur með. Ummæli frá þjálfara Fylkis í minn garð sem eru ekki við hæfi í fótboltaleik. Það situr líka eftir.“

Davíð vildi ekki tjá sig mikið frekar um málið þegar blaðamaður innti hann eftir því.

„Ég held að þeir sem eiga í hlut, þeir vita bara upp á sig sökina. Þeir sem vilja kafa dýpra í það verða bara að fara yfir hvað gerist hérna í leiknum, þegar allt sýður upp úr, milli hverja það er. Ég ætla ekki að eiga nein ummæli um það. Þjálfari Fylkis má reyndar eiga það að hann biður mig afsökunar, og ég tek því.“

Davíð fékk sjálfur gult spjald á 90. mínútu en það atvik var ótengt þessu.

„Það er bara fyrir einhver köll hérna inn á völlinn sem eru fótboltatengd og mér fannst ég ekki gera meira af en andstæðingurinn. En ég virðist eiga langt í land með að vinna leik sem þessi dómari dæmir,“ sagði Davíð Smári að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×