Innlent

Palestínu­fánar í Mos­fells­bæ vekja upp mis­góð við­brögð

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Haldin var samkoma í Mosfellsbæ í gær þar sem flóttafólk frá Palestínu var boðið velkomið til landsins.
Haldin var samkoma í Mosfellsbæ í gær þar sem flóttafólk frá Palestínu var boðið velkomið til landsins. Hanna Símonar

Í gær birti Hanna Símonardóttir mynd á X, áður Twitter, þar sem sjá má nokkra Palestínufána blakta ásamt fána með merki Mosfellsbæjar og íslenska fánanum. Yfirskrift Hönnu var „dagurinn sem Mosfellsbær varð öðrum til fyrirmyndar“, en færslan hefur vakið misgóð viðbrögð.

Hanna segir í samtali við fréttastofu að í gær hafi verið haldin samkoma þar sem flóttafólk frá Palestínu sem komið hefur til landsins með löglegum hætti var boðið velkomið. Samkoman var á vegum sjálfboðaliða.

Grillaðar voru pulsur og fólki boðið að gera sér glaðan dag í Tungubakka í Mosfellsbæ, en bærinn veitti sjálfboðaliðunum góðfúslegt leyfi til afnota á húsnæði Aftureldingar. Bæjarfulltrúar hafi svo mætt á samkomuna, tekið þátt í gleðinni og boðið fólkið velkomið með formlegum hætti.

Hanna hefur sjálf verið með tvö börn frá Palestínu í fóstri undanfarið ár, en fjölskyldur þeirra beggja eru nýkomnar til landsins á grundvelli fjölskyldusameiningar.

Á samfélagsmiðlinum X var ekki greint frá þessu tilefni, en myndin af fánunum birt og Mosfellsbær sagður öðrum bæjarfélögum til fyrirmyndar. Þá hafa sumir fagnað framtakinu og sagst vera stoltir Mosfellingar. Aðrir segja bæinn til skammar.

„Næst verður nasistafána og fána Al Qaeda flaggað. Frábært framtak,“ segir Arnaldur Árnason.

Runólfur Trausti segist alltaf hafa verið „Mikill MOSÓ maður og ekki minnkar það núna!“

Önnur ummæli eru ýmist á þann veg að Mosfellsbær sé til skammar, þetta sé ekki fögur sjón, eða að þetta sé „geggjað!“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×