Innlent

Dóms­mála­ráð­herra skammar fjár­mála­ráð­herra fyrir af­skipti

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Dómsmálaráðuneytið hefur sent frá sér tilkynningu á vef stjórnarráðsins þar sem kemur fram að ráðuneyti stjórnarráðsins og ráðherrar ríkisstjórnarinnar eigi ekki að hafa afskipti af því hvort eða hvernig mál séu tekin til rannsóknar sem sakamál.

Tilefni þessarar tilkynningar er erindi sem Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra sendi í gær lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vegna netsölu áfengis til neytenda hér á landi.

„Þróun síðustu áratuga hefur verið sú að efla enn frekar sjálfstæði ákæruvalds og rannsóknarvalds. Ríkissaksóknari, sem nýtur sjálfstæðis í embætti sínu, er jafnframt æðsti yfirmaður sakamálarannsókna og tekur ekki við fyrirmælum frá neinum öðrum stjórnvöldum. Er þetta í samræmi við grundvallarreglur réttarríkisins um að sakamálarannsóknir lúti einungis lögum en ekki pólitískum afskiptum,“ segir í tilkynningunni.

Í tilkynningunni segir íslenskt sakamálaréttarfar byggja á því grundvallarsjónarmiði að meðferð sakamála eigi ekki að lúta pólitískum afskiptum valdhafa. Slík afskipti séu til þess fallin að grafa undan réttarríkinu og geti leitt til þess að sá sem sætir rannsókn telji sig ekki hljóta réttláta málsmeðferð þar sem hlutleysis hafi ekki verið gætt við ákvörðun um saksókn.

„Af þessu leiðir að dómsmálaráðuneyti og dómsmálaráðherra hafa engin afskipti af sakamálarannsóknum á Íslandi.“


Tengdar fréttir

Áfengissalar kvarta undan afskiptum ráðherra af lögreglu

Sante ehf., sem heldur úti netverslun með áfengi, hefur sent kvörtun til Umboðsmanns Alþingis þar sem kvartað er undan „óeðlilegum pólitískum afskiptum“ fjármála- og efnahagsráðherra af lögreglurannsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×