Viðskipti innlent

Á­höfnum tveggja skipa Þor­bjarnar sagt upp

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Áhöfnum á skipunum Sturlu GK-12 og Valdimar GK-195 hefur verið sagt upp, en uppsagnirnar eru liður í endurskipulagninu fyrirtækisins og gert er ráð fyrir því að starfsmennirnir verði ráðnir til annarra starfa.
Áhöfnum á skipunum Sturlu GK-12 og Valdimar GK-195 hefur verið sagt upp, en uppsagnirnar eru liður í endurskipulagninu fyrirtækisins og gert er ráð fyrir því að starfsmennirnir verði ráðnir til annarra starfa. Vísir/Vilhelm

Áhöfn tveggja skipa í eigu Þorbjarnar í Grindavík hefur verið sagt upp, en gert er ráð fyrir því að skipverjunum verði útveguð ný störf. Gunnar Tómasson framkvæmdastjóri Þorbjarnar segir í samtali við Vísi að verið sé að endurskipuleggja útgerðina fyrir haustið.

Áhöfnum á togaranum Sturlu-GK12 og línuskipinu Valdimar GK-195 hefur verið sagt upp. „Jújú, við erum að undirbúa haustið, það er verið að smíða nýtt skip á Spáni sem kemur í sumar, við erum að undirbúa það að færa til,“ segir Gunnar. Hann horfir fram á breytta útgerðarhætti með nýju skipi og haustinu, en um er að ræða ísfisktogara, mjög öflugan, að sögn Gunnars. Hann gerir ráð fyrir því að gera annað gömlu skipanna út einhvern tímann, en hitt leggi þau alveg.

Hann segir að Þorbjörn hafi reynt eftir fremsta megni að landa í Grindavík, en einnig verið að landa í Hafnarfirði og Grundarfirði. Tæplega sextíu starfsmönnum fiskvinnslu Þorbjarnar í Grindavík var sagt upp á dögunum, en vinnslan hafði verið undir helmingsafköstum.

Gunnar segir að starfsfólkið sem er eftir séu aðallega verkstjórar og þess háttar starfsmenn.

Hann er bjartsýnn á komandi fiskveiðiár. „Jájá maður leyfir sér ekkert annað en að vera bjartsýnn, fiskveiðiárið verður örugglega gott Spurningin er bara hvað getum við gert í Grindavík meðan þetta ástand gengur yfir.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×