Sport

Skúli Óskars­son er látinn

Árni Sæberg skrifar
Skúli Margeir Óskarsson var sæmdur gullmerki Kraftlyftingasambands Íslands árið 2016.
Skúli Margeir Óskarsson var sæmdur gullmerki Kraftlyftingasambands Íslands árið 2016. vísir/KRAFT

Skúli Margeir Óskarsson kraftlyftingamaður lést á hjartadeild Landspítalans sunnudaginn 9. júní. Skúli varð fyrstur íslenskra íþróttamanna til að setja heimsmet, þegar hann setti heimsmet í réttstöðulyftingum árið 1980 og var brautryðjandi á sviði kraftlyftinga á Íslandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðstandendum Skúla Margeirs. Þar segir að Skúli hafi fæðst þann fæddist 3. september árið 1948. Skúli hafi alist upp á Fáskrúðsfirði og þrátt fyrir að hafa lengst af búið á höfuðborgarsvæðinu hafi hann keppt undir merkjum Leiknis og UÍA.

Hann hafi hafið að æfa lyft­ingar seint á sjö­unda ára­tugnum. Hann hafi keppt á sínu fyrsta mót­i 1970 og sett næstu árin hvert Íslands­metið á fætur öðru. Skúli hafi einnig keppt á alþjóðlegum lyftinga­mótum og náð silfri í létt­vigt­ar­flokki á heims­meist­ara­mót­inu árið 1978 í Turku í Finnlandi. 

Það ár hafi hann verið kjörinn Íþrótta­maður árs­ins, fyrstur allra kraftlyft­inga­manna. Árið 1980 hafi hann sett heims­met í réttstöðulyftu þeg­ar hann lyfti 315,5 kílóum í 75 kílóa flokki. Það ár hafi hann verið kjör­inn Íþróttamaður árs­ins í annað skipti. 

Skúli hafi að auki unnið tvenn bronsverðlaun á HM, þrjá Norð­ur­landa­meist­aratitla og fjöl­marga titla inn­an­lands. Skúli hafi verið þjóðþekktur fyrir afrek sín en ekki síður vakið athygli fyrir hnyttin tilsvör og líflega framkomu á mótum. Skúli hafi verið sæmdur gullmerki KRAFT 2016 og útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ árið 2017.

Skúli lætur eftir sig eiginkonu, dóttur, tvær stjúpdætur og átta barnabörn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×