Lífið

Fólk ofmeti sína eigin þekkingu á næringu

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Dögg hvetur fólk til þess að skoða samfélagsmiðla með gagnrýnni hugsun að leiðarljósi.
Dögg hvetur fólk til þess að skoða samfélagsmiðla með gagnrýnni hugsun að leiðarljósi. Vísir/Getty

Næringafræðingur segir að samfélagsmiðlar séu að grafa undan næringarfræði. Rangfærslur grasseri á miðlunum og ýti undir þau áhrif að fólk ofmeti þekkingu sína.

Þetta segir Dögg Guðmundsdóttir næringarfræðingur í Bítinu á Bylgjunni. Tilefnið er grein hennar og kollega hennar Guðrúnar Nönnu Egilsdóttur um næringarfræði og samfélagsmiðla. Þar velta þær fyrir sér hvort samfélagsmiðlar séu að setja heilbrigðiskerfi framtíðarinnar á hausin vegna rangfærslna um næringu.

Fólk ofmeti þekkingu sína

„Við vitum að við getum unnið gegn ákveðnum sjúkdómum með góðu mataræði og erum að velta fyrir okkur röngum upplýsingum sem eru í gangi í villta vestrinu sem eru samfélagsmiðlar,“ segir Dögg í Bítinu.

Hún segir þær röngu upplýsingar af allskyns toga, meðal annars um ónauðsynleg fæðubótarefni og kjöt. Algóritmi samfélagsmiðla haldi röngum upplýsingum að fólki og nefnir Dögg hin svokölluðu Dunning Kruger áhrif.

„Það eru semsagt þau áhrif þegar fólk fer að ofmeta sína eigin þekkingu og þá vill það gerast að fólk einblíni á eitthvað eitt ákveðið og fer að ofmeta það í staðinn fyrir að horfa á heildarmyndina og fer jafnvel að leita sér að upplýsingum sem staðfesta það, hvort sem það sé meðvitað eða ómeðvitað. Þá oft með ritrýndum greinum og svoleiðis en hunsar þá algjörlega þær greinar sem vega á móti.“

Áhrifavaldar öflugir í rangfærslunum

Dögg minnir á að næringarfræði snúist sem vísindagrein um að líta á heildarmyndina. Skoða allar rannsóknir. Nóg sé til af rangfærslum og fólki sem haldi þeim ítrekað fram og nefnir Dögg að það séu oft áhrifavaldar af einvherju tagi.

„Svo er þetta náttúrulega oft með samfélagsmiðla, að þeir eru landamæralausir, þannig þetta eru oft áhrifavaldar erlendis frá og svo eru þeir oft líka hérlendis. Þannig það myndast oft stemning sem er erfitt að ráða við og það fer mikil orka í að leiðrétta allskonar svona mýtur.“

Dögg segir alveg ljóst að þetta grafi undan næringafræðinni. Þeir sem harðastir séu ráðleggi fólki að treysta ekki sérfræðingum og nefni í því samhengi að rannsóknir þeirra byggi ekki á einstaka atriðum.

„En við erum náttúrulega ekki að nota einhverjar ákveðnar rannsóknir, við skoðum bara rannsóknir í heild sinni og vegum og metum upplýsingar eftir því, af því að rannsóknir eru allskonar eftir því hvað er leiðrétt fyrir, hvað er verið að skoða, hvaða mengi, hversu stórar þær eru og svo framvegis.“

Fólk slökkvi á sér þegar það skoði samfélagsmiðla

Dögg segist helst ráðleggja fólki að taka til á samfélagsmiðlum sínum. Það sé eðlilegt að fólki hætti til að slökkva á sér þegar það noti miðlana, enda sé þar að finna allskonar skemmtiefni, sem gjarnan sé heiladautt. Inn á milli slæðist hinsvegar rangfærslur.

„Og þá er kannski slökkt á gagnrýnu hugsuninni, þannig aðeins að fara inn í þetta með gagnrýna hugsun. Eru þessar upplýsingar bestar fyrir mig? Get ég treyst þessum einstaklingi fyrir minni heilsu? Get ég tekið þessum ráðleggingum og ef ekki, þá jafnvel bara affylgja, unfollowa, eða jafnvel reporta ef þú ert ekki að fylgja einstaklingnum og þetta bara kemur upp.“

Dögg minnir á að grúppur á Facebook séu gjarnan bergmálsklefar. Þar safnist saman einstaklingar sem séu gjarnan sammála hvor öðrum og ákveðnar hugmyndir fái þar með staðfestingu. Sniðugt sé að skoða slíkar grúppur með gagnrýnni hugsun, jafnvel yfirgefa þær.


Tengdar fréttir

Enginn ávinningur annar en einfaldlega hrært vatn

Meistaranemi í næringarfræði segir vörur sem snúast um að hræra upp í vatni enn eitt tískufyrirbrigðið sem sé drifið áfram af markaðsöflum með gylliboðum. Ávinningurinn sé enginn, auk þess sem loforð um virkni séu efnafræðilega ómöguleg. Hún brýnir fyrir fólki að flækja ekki líf sitt að óþörfu en þau sem vilji geti einfaldlega hrært í vatninu sínu sjálf án þess að borga krónu fyrir það. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×