Erlent

Flæmskur aðskilnaðarflokkur sækir í sig veðrið

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Tom van Grieken, formaður Vlaams Belang, hefur lýst Belgíu sem „þvingaðri giftingu“ Flæmingja og Vallóna.
Tom van Grieken, formaður Vlaams Belang, hefur lýst Belgíu sem „þvingaðri giftingu“ Flæmingja og Vallóna. EPA/Olivier Hoslet

Í dag ganga Belgar til þingkosninga ásamt því að kjósa til Evrópuþingsins. Skoðanakannanir benda til þess að flokkur sem berst fyrir því að leysa landið upp muni bæta talsverðu við sig.

Í Flæmingjalandi er flokknum Vlaams Belang að vaxa ásmegin. Í fyrsta sinn stefnir í það að hann hljóti fleiri sæti en Nýja flæmska bandalagið sem hefur í gegnum tíðina verið vinælasti flokkur flæmskra íhaldsmanna. Helstu stefnumál flokksins er sjálfstætt Flæmingjaland ásamt strangri innflytjendastefnu. Guardian greinir frá.

Tom van Grieken, formaður flokksins, vill stofna flæmskt lýðveldi og hefur áður lýst Belgíu sem „þvingaðri giftingu.“ Flokkurinn er með ríflega 27 prósenta fylgi í skoðanakönnunum sem er umtalsverð aukning frá síðustu þingkosningum þar sem hann hlaut 18 prósent flæmskra atkvæða.

Stórsigur í kosningunum myndi þó ekki endilega duga til að koma flokknum í ríkisstjórn vegna langvarandi samkomulagi milli hinna flokkanna í landinu um að útiloka Vlaams Belang úr ríkisstjórnarmyndunarumræðum. 

Þetta samstarfsbann sem Belgar kalla „cordon sanitaire“ var sett á fyrirrennara flokksins vegna stefnu þess í innflytjendamálum sem var sögð stríða gegn mannréttindasáttmála Evrópu. Svipað samvinnubann gildir einnig um jaðarhægri flokka í Evrópuþinginu.

Vlaams Belang hefur aldrei verið í sveita- eða ríkisstjórn vegna bannsins sem sett var fyrir þremur áratugum síðan. Hljóti Vlaams Belang og Nýja flæmska bandalagið meirihluta atkvæði í flæmska þinginu gæti blað verið brotið í sögu belgískra stjórnmála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×