Fótbolti

Ekki fyrsti sigur Åge á Englandi: „Maggie Thatcher, strákunum þínum var rústað!“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bryan Robson skoraði mark Englands í leiknum fræga gegn Noregi 1981.
Bryan Robson skoraði mark Englands í leiknum fræga gegn Noregi 1981. getty/Mark Leech

Åge Hareide stýrði íslenska karlalandsliðinu til sigurs á Englandi á Wembley í gær. Þetta er ekki fyrsti sigur hans á enskum um ævina því hann tók þátt í frægum sigri Norðmanna á Englendingum fyrir 43 árum. 

Hareide var góður leikmaður á sínum tíma og lék fimmtíu landsleiki fyrir Noreg á árunum 1976-86. Sá eftirminnilegasti var eflaust gegn Englandi í undankeppni HM á Ullevaal leikvanginum í Osló 9. september 1981.

Englendingar náðu forystunni í leiknum á 15. mínútu þegar Bryan Robson, sem Manchester United keypti fyrir metverð mánuði seinna, skoraði. Á 36. mínútu jöfnuðu Norðmenn með marki Rogers Albertsen. Markið var allavega skráð á hann þótt hann viðurkenndi seinna að hafa ekki snert boltann á leiðinni í markið.

Fimm mínútum síðar skoraði Hallvar Thoresen og kom norska liðinu yfir. Til að gera langa sögu stutta dugði markið Noregi til sigurs og gleðin á Ullevaal var svo sannarlega ósvikin þegar flautað var til leiksloka.

Enginn var þó ánægðari en Bjorn Lillelien sem lýsti leiknum í norska útvarpinu. Hann ærðist hreinlega úr gleði og orðin streymdu út úr honum og eru löngu orðin ódauðleg.

Lord Nelson! Lord Beaverbrook! Sir Winston Churchill! Sir Anthony Eden! Clement Attlee! Henry Cooper! Lady Diana! Maggie Thatcher! Heyrirðu í mér? Maggie Thatcher. Maggie Thatcher, strákunum þínum var rústað! Strákunum þínum var rústað!

Hlusta má á lýsingu Lilleliens hér fyrir neðan.

Þrátt fyrir tapið í Osló komst England samt á HM 1982, meðal annars þökk sé hagstæðum úrslitum í öðrum leikjum, en Noregur sat eftir. 

Hareide gekk í raðir Manchester City sama ár og Norðmenn unnu sigurinn frækna á Englendingum. Hann lék með liðinu í tvö ár áður en hann fór til Norwich City. Þar lék hann til 1984 en sneri þá aftur heim til Molde.

Hareide og strákarnir í landsliðinu færa sig nú yfir til Rotterdam þar sem þeir mæta Hollandi á mánudaginn.


Tengdar fréttir

Åge: Gott fyrir strákana

Þjálfari íslenska landsliðsins gat verið ánægður með frammistöðu liðsins í kvöld þegar att var kappi við England á Wembley. Leikurinn var síðasti æfingaleikurinn hjá Englandi fyrir EM 2024 og er skemmst frá því að segja að Ísland vann leikinn 1-0 eftir mark frá Jón Degi Þorsteinssyni.

Jón Dagur: „Já þetta bara gerðist?“

Jón Dagur Þorsteinsson var hetja Íslendinga á Wembley í kvöld en hann skoraði eina mark leiksins í 1-0 sigri Íslands á Englandi. Flesta leikmenn dreymir um að upplifa tilfinninguna að skora á þessum sögufræga velli og nú er Jón Dagur búinn að krossa það af draumalistanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×