Erlent

39 ára karl­maður í haldi vegna á­rásarinnar á Mette Frederiksen

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Danski forsætisráðherrann er sögð í áfalli vegna árásarinnar.
Danski forsætisráðherrann er sögð í áfalli vegna árásarinnar. Getty

Lögreglan í Kaupmannahöfn hefur handtekið 39 ára karlmann sem grunaður er um að hafa ráðist á Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur í miðborg Kaupmannahafnar í gær.

Greint var frá handtöku mannsins í færslu lögreglunnar í Kaupmannahöfn á samfélagsmiðlinum X í morgun. Þar kemur fram að hann verði leiddur fyrir dómara klukkan eitt að staðartíma þar sem óskað verði eftir gæsluvarðhaldi. 

Ekki er vitað hvað manninum gekk til en hann er sagður hafa veist að Mette og slegið hana. 

Sjálf hefur Frederiksen ekki tjáð sig vegna málsins en ráðuneyti hennar greindi frá árásinni í gær og sagði forsætisráðherrann í áfalli. Lögreglan hyggst ekki veita frekari upplýsingar að svo stöddu.

Pólitískir bandamenn og keppinautar Frederiksen hafa fordæmt árásina auk annara þjóðarleiðtoga. Þeirra á meðal er Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sem sendi Frederiksen kveðju á X í gærkvöldi þar sem hann sagði Norðurlöndin þekkt fyrir einstaklingsfrelsi, frið, öryggi og sterk lýðræðisleg gildi.

„Það er óásættanlegt að ráðast á kjörinn fulltrúa. Við verðum öll að standa saman og verja gildi okkar,“ skrifaði Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×