Fótbolti

„Ís­land var gríðar­lega ó­heppið í umspilinu“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Gareth Southgate var tekinn tali á æfingasvæði Tottenham Hotspur í gær.
Gareth Southgate var tekinn tali á æfingasvæði Tottenham Hotspur í gær. Vísir/Ívar

Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, er spenntur fyrir leik kvöldsins við Ísland fyrir troðfullum Wembley í Lundúnum.

Valur Páll Eiríksson skrifar frá Lundúnum

England mun í kvöld spila sinn síðasta æfingaleik fyrir komandi Evrópumót í Þýskalandi. Uppselt er á 90 þúsund manna Wembley leikvang í Lundúnum og þar af verða 89.400 trylltir Englendingar. Það er því eðlilegt að Southgate hlakki til.

„Alveg klárlega. Þetta er spennandi, það er alltaf sérstakt að spila á Wembley. Síðasti leikur fyrir stórmót, við höfum gert þetta áður og stemningin alltaf góð. Þetta verður góð áskorun. Við vitum að Ísland var gríðarlega óheppið í umspilinu og þeir munu valda okkur vandræðum,“ segir Southgate.

Klippa: Southgate átti erfiðan dag en hlakkar til kvöldsins

Ísland hefur mætt Englandi 14 sinnum. Að vísu hafa níu þeirra leikja verið gegn B-liði Englands. Ellefu þeirra leikja, gegn A- eða B-liðum Englands, hafa tapast, tveir farið jafntefli og einn unnist. Sigurinn var á stærsta sviðinu. Í 16-liða úrslitum EM 2016 í Nice.

Southgate man vel eftir þeim leik.

„Ég hafði verið í Frakklandi sem ráðgjafi en var kominn heim að horfa á leikinn. Það var erfitt kvöld fyrir enskan fótbolta. Við höfum gengið langan veg síðan þá og núna erum við að skrifa nýjan kafla,“ segir Southgate.

Southgate býst þá við hörkuleik og er meðvitaður um hættur í liði Íslands.

„Þeir eru með góða einstaklinga, þó ég viti að það hafi þurft að losa einhverja leikmenn úr hópnum. Í þessum æfingaleikjum höfum við hins vegar reynt að einblína á okkur sjálfa og okkar gildi innan leiksins. Þannig getum við brugðist við því sem andstæðingarnir gera,“ segir Southgate.

Leikur Englands og Íslands er klukkan 18:45 í kvöld. Hann verður sýndur beint á Stöð 2 Sport í opinni dagskrá og hefst bein útsending klukkan 18:15.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×