Fótbolti

„Veit hvernig börnin mín myndu vilja fá svona fréttir“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Gareth Southgate.
Gareth Southgate. Vísir/Ívar

Gareth Southgate, þjálfari enska karlalandsliðsins í fótbolta, átti erfiðan dag í gær líkt og hann greinir frá við Stöð 2 Sport.

Valur Páll Eiríksson skrifar frá Lundúnum

Líkt og hefð er fyrir stóð enska knattspyrnusambandið að blaðamannafundi degi fyrir leik í gær en þar var íslenska landsliðið ekkert rætt. Lokahópur Englands fyrir komandi Evrópumót var tilkynntur hálftíma fyrir fund og snerist allt í ensku samfélagi um val á hinum og þessum.

„Þetta er erfitt. Við erum þéttur hópur og við höfum þurft að færa góðum vinum erfiðar fréttir. Það hefur verið strembið. En við þurfum einnig að muna að þetta er frábært afrek fyrir þá sem eru valdir, sumir í fyrsta skipti. Við þurfum einnig að samgleðjast þeim,“ segir Southgate.

Klippa: Southgate átti erfiðan dag en hlakkar til kvöldsins

Southgate segir þetta það erfiðasta sem hann gerir í starfi.

„Alveg klárlega. Ég hef spilað og ég er faðir, svo ég veit hvernig börnin mín myndu vilja fá svona fréttir. Það er aðeins hægt að vera eins virðingarfullur og hreinskilinn og hægt er. Allir leikmenn okkar eru miklir fagmenn og við höfum unnið með þeim lengi. Það gerir þetta erfiðara á margan hátt en á sama tíma styðja þeir fast við bakið á liðinu.“

James Maddison og Jack Grealish eru á meðal þeirra sem fara ekki með til Þýskalands á meðan yngri menn líkt og Kobbie Mainoo og Jack Wharton verða í flugvélinni. Hann er fullviss að hópurinn sé sá rétti fyrir komandi verkefni.

„Þetta er spennandi lið. Það eru margir ungir leikmenn að koma upp sem hafa gert gríðarvel að vinna fyrir treyjunni. Það sést líka á gæðum þeirra sem við tókum ekki,“ segir Southgate um landsliðsvalið.

Leikur Englands og Íslands er klukkan 18:45 í kvöld. Hann verður sýndur beint á Stöð 2 Sport í opinni dagskrá og hefst bein útsending klukkan 18:15.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×