Viðskipti erlent

Lækkuðu stýrivexti í Evrópu í fyrsta sinn síðan 2019

Lovísa Arnardóttir skrifar
Forseti Seðlabankans í Evrópu, Christina Lagarde, fór yfir ákvörðunina á blaðamannafundi í dag.
Forseti Seðlabankans í Evrópu, Christina Lagarde, fór yfir ákvörðunina á blaðamannafundi í dag. Vísir/EPA

Seðlabankinn í Evrópu lækkaði í dag stýrivexti bankans í fyrsta sinn síðan 2019. Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að ástæða lækkunar sé að verð hækki eins hratt og að þau séu á góðri leið að ná verðbólgumarkmiðum sínum sem eru tvö prósent. Bankinn lækkaði stýrivextina um 0,25 prósentustig í 3,75 prósent úr fjögur prósent en þeir höfðu verið fastir í fjögur prósent frá september 2023.

Vextir bankans voru fyrst hækkaðir til að bregðast við aukinni verðbólgu í júlí árið 2022 og voru hækkaðir stöðugt þar til í september 2023. Verðbólga hefur lækkað í þeim tuttugu löndum sem nota evruna úr tíu prósent seint árið 2022 í um 2,6 prósent í dag. Fram kemur í umfjöllun Reuters að það megi að mestu þakka lækkandi verði á eldsneyti og að aðfangakeðjur séu að ná sér aftur á strik frá heimsfaraldri Covid.

Í tilkynningu bankans kemur fram að þótt svo að þau séu komin nær verðbólgumarkmiðum sínum sé baráttunni ekki lokið. Í spá bankans sem gefin var út samhliða tilkynningunni um vaxtalækkunina kom fram að gert sé ráð fyrir að verðbólga muni hækka og verða að meðaltali um 2,2 prósent í 2025 sem er nær markmiðinu en þó enn yfir því.

Í frétt Reuters segir að þótt svo vel hafi gengið undanfarið sé útlit fyrir að verðbólgan gæti verið þrálát, eins og séu merki um í Bandaríkjunum.

Forseti bankans, Christine Lagarde, sagði á blaðamannafundi í dag að þrátt fyrir góða þróun á síðustu ársfjórðungum væri líklegt að verðbólga yrði yfir markmiði langt inn á næsta ár. Hún vildi ekkert segja um það á fundinum hvort til meiri lækkunar koma í sumar eða hvort bankinn væri að hörfa frá þröngri peningastefnu. Hún sagði að ef það yrði gert yrði sú ákvörðun byggð á gögnum og að það myndi líklega taka tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×