Upp­gjör og við­töl: Víkingur - Kefla­vík 0-1 | Annar sigur Kefl­víkinga í röð

Atli Arason skrifar
Keflvíkingar eru komnir á skrið í Bestu deild kvenna.
Keflvíkingar eru komnir á skrið í Bestu deild kvenna. vísir/anton

Keflvíkingum tókst að strengja saman tvo deildarsigra með því að sækja stigin þrjú í Fossvog eftir 0-1 sigur á Víkingum. Sigurinn lyftir Keflavík upp úr fallsæti og upp í það áttunda í Bestu-deild kvenna.

Það voru ekki bara vefþjónar Vísis sem lágu niðri í fyrri hálfleik heldur létu færin einnig standa á sér. Keflvíkingurinn Alma Rós Magnúsdóttir fékk dauðafæri eftir rúman 10 mínútna leik og hinu megin átti Sigdís Eva flotta marktilraun eftir tæpar 40 mínútur þegar hún sker inn af vinstri vængnum og þrumar á markið. Meira markvert gerðist ekki í fyrri hálfleik.

Eina mark leiksins kom á 52. mínútu þegar Sigurbjörg Diljá Gunnarsdóttir kemur boltanum í netið á afar skrautlegan hátt eftir undirbúning Melanie Claire Rendeiro.

Keflvíkingar fengu aukið sjálfstraust eftir mark sitt og þóttu líklegri til að bæta við marki frekar en Víkingar að minnka muninn. Allt kom þó fyrir ekki og Birta Guðlaugsdóttir, markvörður Víkinga, hélt heimakonum inn í leiknum allt fram að lokaflautinu.

Atvik leiksins

Það er eina mark leiksins sem Sigurbjörg skoraði á fremur skrautlegan hátt. Þá fékk hún boltann á fjærstöng og var nærri búinn að týna boltanum undan eigin fæti en nær fyrir rest að átta sig á stöðunni og koma knettinum í netið.

Stjörnur og skúrkar

Caroline Van Slambrouck var eins og áður algjör klettur í vörn Keflavíkur og þá átti fyrirliði Keflavíkur, Kristrún Ýr Hólm, annan flottan leik í nýju stöðunni sinni sem djúpur miðjumaður. Birta Guðlaugsdóttir, markvörður Víkings, átti fínan leik í marki heimakvenna og kom oft á köflum í veg fyrir að sigur Keflvíkinga yrði enn stærri.

Dómarinn

Arnar og hans teymi stóðu sig með prýði og ekkert við þau að sakast í dag.

Umgjörð og stemning

Tæplega 100 manns í stúkunni. Sólskin en gífurlega kalt í skugganum.

Viðtöl

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira