Erlent

Tvær á­kærur bætast við í máli Rex Heuermann

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Rex Heuermann verður nú ákærður fyrir að hafa orðið sex konum að bana.
Rex Heuermann verður nú ákærður fyrir að hafa orðið sex konum að bana.

Rex Heuermann verður ákærður fyrir tvö manndráp til viðbótar í dag fyrir dómstóli í New York en ákærurnar gegn Heuermann verða því sex talsins. Þetta herma heimildir fréttastofu News 12 á Long Island. 

Ákæra verður gefin út í dag í máli Heuermann en hann er nú sakaður um að hafa orðið sex konum að bana. Eins og greint hefur verið frá var Heuermann áður ákærður fyrir fjögur manndráp en líkamsleifar allra kvennanna fundust á svipuðum tíma á Gilgo-ströndinni í New York. Konurnar stunduð allar vændi en Heurmann hefur alfarið neitað sök í málinu.

Viðarklæddir veggir í kjallaranum fjarlægðir

Heimildir News 12 herma einnig að viðarklæddir veggir í kjallara á heimili Heuermann og Ásu Guðbjargar Ellerup, eiginkonu Heuermann, hafi verið fjarlægðir í nýlegri heimilisleit af rannsakendum á vettvangi. 

Ekki kemur fram hvort eitthvað hafi fundist á bak við vegginn en Ása hefur áður sagt í yfirlýsingu að hún ætli að leyfa eiginmanni sínum að njóta vafans. 

Nýja ákæran gegn Heuermann kemur í kjölfarið af heimilisleit lögreglu. Fyrrum lögreglumaður á svæðinu sagði í samtali við News 12 að fólk eigi eftir að fá áfall þegar ákæran verður gefin út. „Þetta á eftir að verða átakanlegt. Ég held að þetta muni verða eitt stærsta raðmorðingjamál í sögu Bandaríkjanna,“ sagði fyrrum lögreglumaðurinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×