Innlent

Kærði gæsluvarðhaldsúrskurð vegna manndráps til Lands­réttar

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Frá Kjarnagötu á Akureyri.
Frá Kjarnagötu á Akureyri. Vísir

Maður sem grunaður er um að hafa orðið konu sinni að bana á Akureyri í lok aprílmánaðar kærði áframhaldandi gæsluvarðhaldsúrskurð til Landsréttar á mánudag. Landsréttur hefur ekki enn tekið málið fyrir.

Maðurinn, sem er á sjötugsaldri, er grunaður um að hafa orðið konu sinni, sem var um fimmtugt, að bana í fjölbýlishúsi við Kjarnagötu.

Lögreglan var kölluð að húsinu við Kjarnagötu klukkan hálf fimm að morgni mánudagsins 22. apríl. Við komu á vettvang var lögreglumönnum vísað á meðvitundarlausa konu í íbúðinni og báru endurlífgunartilraunir ekki árangur. Konan var úrskurðuð látin á vettvangi. 

Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan málið kom upp en síðastliðinn mánudag var farið fram á áframhaldandi gæsluvarðhald. Í samtali við fréttastofu segir Skarphéðinn Aðalsteinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Akureyri að maðurinn hafi kært úrskurðinn til Landsréttar en ekki sé búið að taka málið fyrir þar. 

Skarphéðinn segir rannsókn málsins ganga vel og að hún sé langt á veg kominn. 


Tengdar fréttir

Íbúar sváfu vært meðan á öllu gekk á jarðhæðinni

Íbúar í fjölbýlishúsi í Naustahverfinu á Akureyri þar sem kona fannst látin á fimmta tímanum í nótt virðast flestir hafa sofið á sínu græna eyra í nótt og ekki tekið eftir neinu. Lögregla ætlar að fara fram á gæsluvarðhald yfir karlmanni sem handtekinn var á vettvangi vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×