Neytendur

Lands­virkjun vann og neyt­endur borga brúsann

Árni Sæberg skrifar
Guðmundur Ingi Ásmundsson er forstjóri Landsnets.
Guðmundur Ingi Ásmundsson er forstjóri Landsnets. Vísir/Arnar

Hæstiréttur hefur dæmt innheimtu Landsnets á svokölluðu aflgjaldi af framleiðendum raforku ólögmæta. Sama niðurstaða á neðri dómstigum gerði það að verkum að Landsnet færði aflgjaldið yfir á notendur raforku, neytendur.

Forsaga málsins er sú að Landsnet gerði þá breytingu í apríl 2022 að krefja orkuframleiðendur um fyrrnefnt aflgjald fyrir að mata orku inn á kerfi Landsnets. Hluti af flutningsgjaldi var færður yfir á raforkuframleiðendur í samræmi við kostnað af innmötun orku. Ágreiningurinn laut að því hvort heimild væri í raforkulögum til að innheimta aflgjaldið.

Orkustofnun lagði blessun sína yfir gjaldið

Landsvirkjun er langstærsti orkuframleiðandi landsins og taldi gjaldið ekki samræmast lögum. Fyrirtækið stefndi Landsneti og Orkustofnun, sem heimilaði innheimtu gjaldsins, og krafðist þess að viðurkennt yrði að óheimilt hafi verið að innheimta gjaldið. Landsvirkjun hafði betur bæði fyrir héraðsdómi og Landsrétti.

Vegna niðurstöðu dómsins breytti Landsnet uppbyggingu flutningsgjaldskrár sinnar þannig að aflgjaldið svonefnda lenti aftur á notendum raforku. Kostnaður vegna innmötunar þeirra færðist því frá framleiðendunum og til neytenda sem hluti af flutnings- og dreifikostnaði.

Allt að fimm prósent hækkun

Í tilkynningu frá RARIK, sem er opinbert hlutafélag í eigu ríkisins, á sínum tíma sagði að hækkun Landsnets á RARIK fæli í sér 3-5 prósenta verðhækkun fyrir viðskiptavini RARIK. RARIK er með um 90 prósent hlutdeild í dreifikerfi raforku í sveitum landsins og selur raforku í gegnum dótturfélagið Orkusöluna.

Dómur Hæstaréttar var kveðinn upp klukkan 14 og hefur ekki enn verið birtur.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×