Erlent

Þekktur sænskur rappari skotinn til bana

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Rapparinn C. Gambino bar ætíð svarta grímu yfir andliti.
Rapparinn C. Gambino bar ætíð svarta grímu yfir andliti. getty/instagram

Sænski rapparinn C. Gambino var skotinn til bana á bílastæði í Gautaborg í gærkvöldi. Í maí síðastliðnum vann hann til hinna sænsku Grammis-verðlauna.

Tilkynning barst lögreglu um tíuleytið í gærkvöldi um skotárás við Selma Lagerlöfs torgið í Hisingen hluta Gautaborgar. Enn er leitað eins eða fleiri skotmanna.

C. Gambino var fluttur á gjörgæslu þar sem hann var úrskurðaður látinn skömmu síðar. Margir sænskir Hip hop aðdáendur minnast hans nú á samfélagsmiðlum.

Í síðasta mánuði vann hann til hinna sænsku Grammis-verðlauna fyrir Hip hop-plötu ársins. Hann gaf út lagið Sista Gang fyrir einungis viku.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var mörgum skotum hleypt af á bílastæðinu í Hisingen og enn leitað að skotmönnum víðsvegar um Gautaborg. 

Aftonbladed greinir frá því að C. Gambino hafi að öllum líkindum verið vel tengdur glæpahópi í Gautaborg og staðið í viðskiptum með sakfelldum gengjameðlimi sem lögregla tengir við hið svokallaða Norra Biskop gengi.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem rappari er myrtur í tengslum við gengjaátök í Svíþjóð. Árið 2021 var rapparinn Einár, einn vinsælasti rappari Svíþjóðar á þeim tíma, skotinn til bana í Hammarby sjöstad í Stokkhólmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×