Fréttir

Segir franska her­menn í Úkraínu lög­mæt skot­mörk Rússa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lavrov er á ferð um Afríku og sést hér með Morissanda Kouyate, utanríkisráðherra Gíneu.
Lavrov er á ferð um Afríku og sést hér með Morissanda Kouyate, utanríkisráðherra Gíneu. AP/Utanríkisráðuneyti Rússa

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segir franska hermenn sem kunna að ferðast til Úkraínu til að þjálfa Úkraínumenn í hernaði „lögmæt skotmörk“ Rússa.

Þetta sagði ráðherrann á blaðamannafundi með Jean Claude Gakosso, utanríkisráðherra Vestur-Kongó, en Lavrov er nú í opinberri heimsókn í Afríku.

Úkraínumenn greindu frá því í síðustu viku að greitt hefði verið fyrir því að franskir hermenn gætu komið til Úkraínu í þeim tilgangi að þjálfa úkraínska hermenn. Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagðist hins vegar aðspurður um staðhæfingarnar ekki vilja tjá sig um eitthvað sem gæti mögulega gerst.

Hann myndi tjá sig um málið þegar þess yrði minnst síðar í þessari viku að 80 ár væru liðin frá innrás bandamanna í Normandí.

Lavrov sagðist telja að Frakkar væru þegar komnir til Úkraínu en óháð stöðu þeirra þá væru allir embættismenn hersveita og allir málaliðar lögmæt skotmörk Rússa.

Undir þetta tók Dmitry Peskov, talsmaður stjórnvalda í Moskvu, en hann sagði að þeir sem tækju þátt í þjálfun úkraínskra hermanna nytu engrar friðhelgi og þá gilti einu þótt þeir væru Frakkar.

Á blaðamannafundinum talaði Lavrov einnig niður friðarráðstefnu sem Úkraínumenn hafa boðað til í Sviss síðar í þessum mánuði. Rússum var ekki boðið að taka þátt og sagði Lavrov ráðstefnuna merkingarlausa. Aðeins væri um að ræða tilraunir til að varðveita bandalag sem væri að liðast sundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×