Fótbolti

Orri Steinn ekki með gegn Eng­landi og Hollandi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Orri Steinn Óskarsson fagnar einu af tveimur mörkum sínum fyrir A-landsliðið.
Orri Steinn Óskarsson fagnar einu af tveimur mörkum sínum fyrir A-landsliðið. vísir/Hulda Margrét

Framherjinn Orri Steinn Óskarsson hefur þurft að draga sig út úr hópi íslenska A-landsliðsins í fótbolta sem spilar á næstu dögum vináttulandsleiki gegn Englandi og Hollandi. Í hans stað kemur Sævar Atli Magnússon inn í hópinn.

Hinn 19 ára gamli Orri Steinn spilaði vel með FC Kaupmannahöfn á nýafstaðinni leiktíð og skoraði meðal annars 15 mörk í öllum keppnum. Hann skoraði í lokaleik tímabilsins þegar FCK tryggði sér sæti í Sambandsdeild Evrópu á komandi leiktíð.

Framherjinn hefði því komið fullur sjálfstrausts inn í leikina gegn Englandi og Hollandi. Hann er hins vegar að glíma við meiðsli og hefur því þurft að draga sig úr hópnum. Í hans stað kemur hinn 23 ára gamli Sævar Atli, leikmaður Lyngby í Danmörku, inn í hópinn.

Annað árið í röð átti hann sinn þátt að Lyngby hélt sæti sínu í efstu deild. Sævar Atli, sem spilaði oftar en ekki á miðjunni hjá Lyngby á nýafstöðnu tímabili, skoraði alls sex mörk í öllum keppnum ásamt því að gefa fimm stoðsendingar.

Orri Steinn á að baki 8 A-landsleiki og hefur skorað í þeim 2 mörk á meðan Sævar Atli hefur spilað fimm leiki fyrir A-landslið Íslands.

Ísland mætir Englandi þann 7. júní og Hollandi þann 10. júní. Báðir leikirnir fara fram ytra en verða í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×