Sport

„Þetta er risa­stórt batterí“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Orri Freyr í leik með íslenska landsliðinu.
Orri Freyr í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/ Getty / Sanjin Strukic/Pixsell/MB Media/

Handboltamaðurinn Orri Freyr Þorkelsson vann alla þá titla sem í boði voru í Portúgal á nýafstöðnu tímabili. Hann elskar lífið í Lissabon.

Orri er á sínu fyrsta tímabili með Sporting. Um helgina varð hann bikarmeistari eftir að hafa unnið Porto í bikarúrslitaleiknum. Að auki varð hann portúgalskur meistari sem og deildarbikarmeistari.

„Að sjálfsögðu er ákveðin hápunktur núna. Maður er kannski ekki alveg búinn að gera upp tímabilið í heild sinni en ef ég horfi til baka núna þá er ég hrikalega sáttur. Mér er búið að líða mjög vel hérna, innanvallar sem utan. Það er gott að búa hérna og þetta er æðisleg borg,“ segir Orri Freyr í Sportpakkanum á Stöð 2 í gærkvöldi.

Orri kom til Sporting frá norska liðinu Elverum þar sem hann lék síðustu tvö tímabil.

„Mér finnst aðstaðan betri og sömuleiðis upplifun mín á þessu liði er betri. Mér líður betur hérna, þó að mér hafi líka liðið vel í Elverum.“

Eins og margir vita er Sporting einnig með risastórt knattspyrnufélag. Orri verður sannarlega var við það.

„Maður þarf að ganga framhjá fótboltavelli sem tekur fimmtíu þúsund manns á leiðinni á hverja einustu æfingu. Svo kíkir maður á leikina og þetta er risastórt batterí.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×