Körfubolti

Charles Barkley og fleiri hneyksluð yfir ljótum brotum á Caitlin Clark

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Caitlin Clark á fullri ferð í leik með Indiana Fever.
Caitlin Clark á fullri ferð í leik með Indiana Fever. AP/Doug McSchooler

Körfuboltakonan Caitlin Clark fær heldur betur harðar móttökur á sínu fyrsta tímabili í WNBA-deildinni. Hvað eftir annað má sjá leikmenn brjóta fólskulega á nýju stórstjörnu deildarinnar.

Margir kalla eftir því að tekið verði harðar á öllum þessum brotum sem utan frá líta út sem eins konar busun.

Clark er ein frægasta íþróttakona Bandaríkjanna eftir stórkostlegan háskólaferil og koma hennar í WNBA hefur stóraukið áhugann á deildinni.

Umræðan á netinu kallar eftir aðgerðum og saka um leið leikmenn deildarinnar um öfund þegar að flestra mati, þær ættu að þakka fyrir sviðsljósið sem kemur með Clark.

Clark sjálf hefur talað um það að henni finnst eins og hún sé skotmark en jafnframt ætlar hún að passa sig að láta ekki plata sig út í einhverja vitleysu.

„Mér finnst ég bara vera komin á þann stað að ég verð bara að taka þessu. Alls ekki hefna mín Ég verð bara að leyfa þeim að slá mig,“ sagði Clark eftir leik Indiana Fever í gær.

Fever náði þar naumum 71-70 sigri á Chicago Sky. Þetta var fyrsti heimasigurinn á tímabilinu og jafnframt aðeins annar sigurinn í fyrstu tíu leikjunum.

„Svona er þetta bara og það er mikilvægt að leyfa þeim ekki að komast inn í hausinn á mér. Vita bara að það er von á þessu. Staðan er bara þannig að ég mun fá nokkur þung högg í hverjum leik,“ sagði Clark.

Enn eitt dæmið var í þessum Chicago leik þar sem Chennedy Carter keyrði Clark niður þegar boltinn var ekki kominn í leik.

Í ofanálag þá neitaði síðan umrædd Carter að tala um Clark á blaðamannafundinum þegar hún var spurð út í brotið. Vanvirðingin algjör og í raun sorgleg.

Clark var með 11 stig og 6 stoðsendingar í leiknum en hitti aðeins úr 2 af 9 þriggja stiga skotum. Hún hefur ekki hitt vel í fyrstu tíu leikjum sínum í WNBA en er með 17,6 stig, 6,6 stoðsendingar og 5,1 frákast að meðaltali í leik.

Carles Barkley hélt eldræðu til stuðnings Clark og kallaði leikmenn deildarinnar smásálarlegar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×