Lífið

„Ef við erum lausnamiðuð þá sköpum við tæki­færin“

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Kolbrún segist aldrei leyft sér að upplifa sig sem fórnarlamb, enda leynist tækifærin allsstaðar.
Kolbrún segist aldrei leyft sér að upplifa sig sem fórnarlamb, enda leynist tækifærin allsstaðar. Samsett

Röð atburða leiddi til þess að Kolbrún Róbertsdóttir tók stóra og djarfa ákvörðun árið 2012. Hún flutti til Spánar ásamt börnunum sínum þremur, og það eina sem höfðu meðferðis voru fimm ferðatöskur. Kolbrún lét hjartað ráða för og leyfði tækifærunum að koma til sín. Það borgaði sig á endanum; hún opnaði jógastúdíó við suður strönd Spánar.

Kolbrún hafði upplifað erfiða tíma áður en fjölskyldan flutti búferlum en líkt og hún bendir á geta erfiðleikar oftar en ekki opnað dyr að stórkostlegum tækifærum.

Lærði snemma að taka hlutunum ekki persónulega

Kolbrún er úr Kópavoginum og er elst af fjórum systkinum.

„Æskan mín mótaði mig fljótt því ég lærði að vera mjög sjálfstæð. Ég hef verið óhrædd við að prófa mig áfram í lífinu og er mjög fylgin sjálfri mér. Foreldrar mínir voru ung þegar þau eignuðust mig eins og algengt var á þessum árum. Enginn er fullkomið foreldri en það vill svo til að þau voru bæði mjög lokuð og áttu erfitt með að mynda tilfinningalega nánd. Ég var því aldrei háð foreldrum mínum tilfinningalega og var því oft ein í mínum skapandi huga og leiddist sjaldan. Ég lærði að treysta á sjálfa mig með því að læra af fjölmörgum mistökum sem ég hef gert í gegnum tíðina og er þakklát fyrir skóla lífsins.“

Hún bendir á að barnæskan sé dýrmæt; þar taki einstaklingar á móti upplýsingum sem mótar þá allt lífið.

„Það skiptir máli hvaðan upplýsingarnar koma, frá hvernig fólki og við hvaða aðstæður. Það fer allt í gagnabanka undirmeðvitundar okkar og út frá þessum upplýsingum tökum við ákvarðanir nútímans og upplifum tilfinningar sem gætu í raun verið skoðanir annara inn prentaðar í okkar huga frá barnæsku. Ég hugsa að við náum aldrei að vernda börnin okkar hundrað prósent, en með því að vera einlæg, opin og í nánum samskiptum við þau og gefum þeim frelsi til að upplifa sig sjálf og lífið. Ég lærði snemma að taka ekki hlutum inná mig eða persónulega sem tengdust mér ekki heldur voru annara byrði en ég tel nauðsynlegt að við gerum greinarmun á því hvenær ábyrgðin er okkar eða hvenær verið er að setja á okkur til dæmis skömm sem tilheyrir okkur ekki.“

Kolbrún byrjaði sextán ára að vinna á æfingarstöð og hefur verið viðriðin það alla tíð ásamt því að kenna jóga og leiða hugleiðslu. „Ég hef alltaf verið heilluð af sálfræði, dulspeki, hugleiðslu og djúpum pælingum.“

Hún byrjaði einnig snemma að vinna við myndlist; hanna, teikna og gera upp húsnæði.

„Ég rak líka verslunina Augnakonfekt og var í verslunarrekstri í nokkur ár, ég var að flytja inn listmuni, húsgögn, borðbúnað og gjafavöru frá öllum heimshornum ásamt því að vera með myndlistina mína þar til sölu.“

Með mikilli þrautseigju og elju tókst Kolbrúnu að opna jógastúdíó á Spáni; fallegan og dásamlegan stað.Aðsend

Veitir börnunum sínum það sem hana sjálfa skorti

Kolbrún á þrjú börn og er óendanlega stolt móðir, eins og hún orðar það sjálf.

„Sonur minn Logi sem er 14 ára er mikill íþróttadrengur og varð Norðurlandameistari og Íslandsmeistari í handbolta í sínum flokk. Það er svakalega gaman að fylgjast með því. Anna mín er 24 ára og er einstæð móðir eins og ég og við búum saman og hjálpumst að. Hún er að vinna hundrað prósent vinnu með sálfræðinni í HÍ sem hún er að klára , svo ótrúlega dugleg er hún. Sóldís sem er 26 ára er i læknisnámi erlendis, henni gengur vel þrátt fyrir mikið álag sem fylgir náminu og fjarveru við fjölskylduna.“

Hún hefur verið einstæð móðir að mestu leyti síðustu ár.

„Ég var gift barnsföður mínum sem ég á dætur mínar með en á endanum þá gaf ég honum þá úrslitakosti að velja á milli mín og flöskunnar. Það var auðvelt val fyrir hann, enda bjóst ég ekki við öðru af reynslu áranna með honum. Mér fannst ég betur sett að vera ein með börnin heldur en að vera með væntingar um að hann myndi breytast og taka meiri þátt í uppeldi og heimilislífi,“ segir hún.

„Það er sérstakt hvað það hefur mikil áhrif á mann að búa með virkum alka. Ég var heillengi að jafna mig eftir skilnaðinn enda sambærilegt að búa við andlegt ofbeldi að svo mörgu leyti þar sem farið var yfir mín mörk ótal sinnum; mínar væntingar og þrár eða tími ekki virtur og ég vissi aldrei hverju ég átti von á. Ég hef því lagt mig við að passa uppá sjálfa mig og æft mig að setja mörk og standa við þau sem er ein mesta áskorunin í þessu lífi. 

En þetta var fyrir tuttugu árum síðan og hefur vissulega þroskað mig og styrkt enda gott að hafa þetta í reynslubankanum þar sem fjölmargar konur hafa leitað til mín í sömu sporum.“

Kolbrún og börnin hennar þrjú eru einstaklega samheldin og náin.Aðsend

Samband Kolbrúnar og barnanna hennar þriggja er að hennar sögn einstakt.

„Ég er í raun að gefa þeim það sem mig skorti á margan hátt sem er einlægt samband við foreldri. Það er ekki sjálfsagt að vera foreldri og við erum öll misjöfn. En foreldrahlutverkið er það mikilvægasta að mínu mati. Ég veit hvað það er að fá ekki tilfinningalega tengingu við foreldra. Það ríkir vinátta og traust á milli mín og barnanna minni enda höfum við brallað svo mikið saman í gegnum árin og þekkjumst svo vel. Þau þekkja alla mína galla og kosti og einhverra hluta vegna sækjast þau í að vera með mér þannig að ég hlýt að hafa gert eitthvað rétt. Mér leiðist aldrei enda erum við alltaf að dunda okkur saman og yfirleitt er gaman hjá okkur. Þau hafa öll æft með mér íþróttir og við stundum útiveru nánast á hverjum degi. Þau eru öll að stunda sitt og þeim gengur vel.“

Þurfti að setja skýr mörk

Árið 2012 stóð Kolbrún á tímamótum í lífinu. Hún hafði síðustu fjögur ár á undan rekið verslun en efnahagshrunið spilaði inn í og gerði róðurinn sífellt þyngri.

„Ég var með einkaleyfi fyrir glæsilegri söfnunarvöru sem seldist smám saman. En hver mánaðarmót voru erfið og ég reyndi allt sem ég gat til að þrauka yfir erfiðasta hjallann. Það sem bjargaði málunum var stór vörulager sem ég átti og búðin var ávallt stútfull af vöru. En aðallega seldi ég málverkin mín sem ég vann að inni í versluninni þannig að vinnustofan mín var á sama stað. Margir komu því í spjall á meðan ég málaði en mér hefur alltaf fundist gaman að skapa innan um aðra.

Ég hef selt á síðustu þrjátíu árum um þrjú hundruð málverk um allan heim og verið mjög heppin. En málverkasala er ekki stabíl og er erfiður rekstur að treysta á. Ég var alveg komin með nóg og var hætt að getað haft hugann við reksturinn.“

Að lokum tók Kolbrún þá ákvörðun að setja verslunina á sölu og breyta um stefnu í lífinu. Hugur hennar stefndi erlendis.

„Frá því að ég var lítil stelpa dreymdi mig um að búa í hlýrra landi. Ég byrjaði síðan að gera plön að flytja og losna við allt þetta álag, bæði út af rekstrinum en þó aðalega út af persónulegum aðstæðum. Sem betur fer var skuldastaðan mín ekki slæm fyrir utan smá yfirdrátt en það vantaði allt peningaflæði og ég lenti í því að hafa rafmagnslaust inni í versluninni þar sem ég gat ekki greitt rafmagnsreikninginn. En þarna var ég einstæð móðir með þrjú börn og var að reyna mitt allra besta að láta börnin mín ekki finna fyrir þessu.

Ég er svo þakklát fyrir allt sem gerðist sem ýtti mér á þann stað að leggja land undir fót þó að það hafi verið erfitt á þeim tíma. En það snerist um að setja mörk enn og aftur. Ég var í erfiðri aðstöðu þar sem ég þurfti að setja skýr mörk og fylgja þeim eftir, þar sem ástandið snerti fleiri enn mig sjálfa. 

Það vill svo til að maður getur orðið mjög óvinsæll þegar maður fylgir eftir og varðveitir sín mörk vegna árekstra sem geta komið uppá og þá reynir virkilega á að standa með sjálfum sér.

Ég ætla ekki að fara nánar útí þau mál en ég varð fyrir miklu einelti og illu umtali þar sem ásetningurinn var að taka mig niður. Ég á hugleiðslunni allt að þakka að komast heil út úr slíku áreiti og viskunni að taka ekki persónulega áliti annara á mér því það hefur ekkert að gera með manneskjuna sem ég er og sannleikann. Ég hef alltaf verið með ágætis sjálfstraust að svo mörgu leyti og reyni að vera opin fyrir kostum og göllum annara því öll erum við nú hér til að læra og þroskast. En stundum þarf hreinlega að loka dyrum þegar allt hefur verið margreint og tími kominn til að opna aðrar.“

Myndlistin er stór partur af lífi Kolbrúnar.Aðsend

Skildi allt eftir á Íslandi

Á þessum tíma, árið 2012 voru gjaldeyrishöft og það voru margar hindranir í veginum.

„En ég vildi halda mig við þessa ákvörðun. Ég fékk þá hugmynd að leigja húsnæði á Alicante svæðinu af Íslendingum. Ég gat því greitt leiguna frá Íslandi og þurfti því ekki að flytja eða millifæra eins mikinn pening til Spánar því gjaldeyrishöftin voru ekki að hjálpa til. Verslunin var ekki að seljast á þessum erfiðu verslunar tímum og ég ákvað að pakka lagernum niður í gáma og flytja vörurnar jafnvel út til mín eða selja seinna.

Í raun skildi ég allt eftir á Íslandi því vegna aðstæðna minna þá hafði ég engan tíma til frekari undirbúnings vegna áreitis og þurfti að koma mér í öryggi sem fyrst og flutti út ein með þrjú börn, fimm ferðatöskur og hjólin okkar. Ég setti föt og annað sem tilheyrði okkur börnunum í átta stóra ruslapoka, það er að segja það sem sem ég vildi fá sent yfir til Spánar. En þar sem við gátum tekið lítið með okkur þá gaf ég flest allt annað, fyrir utan húsgögn og uppáhalds skrautmuni sem var sett í geymslugám.“

Eftir flutningana kom í ljós að þessir átta ruslapokar sem átti að senda yfir til Spánar höfðu farið fyrir mistök til fjöldskyldumeðlima sem völdu sér úr pokunum og fóru með restina í Rauða krossinn. Í þeim pokum voru meðal annars öll föt, skór, yfirgafnir og töskur Kolbrúnar sem hún hafði safnað sér í gegnum tíðina.

„Þarna var safn merkjavöru sem gladdi viðskiptavini Rauða krossins fyrir mistök. Það var áfall að missa þessa persónulegu hluti. En það góða við þetta var að við bjuggum nálægt stóru molli og þar gat ég endurnýjað fataskápinn, þó að það hefði ekki komið i staðin fyrir þennan missi.“

Nokkrum dögum fyrir brottförina til Spánar fékk Kolbrún tilboð í verslunina sem var margfalt lægra en hún hafði gert ráð fyrir.

„En vegna aðstæðna og álags þá ákvað ég að taka því, og treysti aðilanum fyrir vörunni. Hann lét mig fá tvær milljónir upp ígreiðslu við afhendingu á vörunni og við ætluðum svo að ganga frá restinni af greiðslunni deginum eftir sem varð aldrei úr. Ég var rænd á miðjum degi. Þetta var algjört klúður þar sem ég náði ekki að halda utan um þetta allt ein; það voru þrír dagar í flutningana til Spánar, ég var undir mikilli pressu og hugurinn var á öðrum stað. Samkvæmt talningu þá stóð vörulagerinn á innkaupsverði í 35 milljónum á þeim tíma. Í tvö ár þá vildi ég trúa því að ég fengi þetta greitt og reyndi að höfða til samvisku aðilans en allt kom fyrir ekki. Þetta var mikið áfall fyrir mig.“

Kolbrún segir þessi svik hafa haft mikil áhrif á á sig og börnin, enda varð fjárhagslegt öryggi þeirra fallvallt.

„En ég átti smá aur sem ég fékk útúr eign sem ég seldi og deildi því niður í umslög sem ég fór sparlega með og notaði mánaðarlega. Þannig gat ég gert plön fram í tímann.“

Þrautseigjan borgaði sig

Þegar komið var út til Alicante var planið hjá Kolbrúnu að byrja á því að fá vinnu á æfingarstöð við að þjálfa og kenna jóga, þar sem hún var þegar komin með réttindi sem hot jógakennari.

„Ég keypti mér strax æfingarkort og eigandinn tók fljótlega eftir mér og bauð mér vinnu en ég var þá búin að vera þarna í viku. Honum vantaði enskumælandi jógakennara og ég skellti mér útí djúpu laugina.“

Fljótlega fékk Kolbrún þá hugmynd að opna jógastúdíó.

„Ég varð heilluð af rólujóga og svokölluðu aeroyoga en það voru fá slík stúdíó á Spáni. Ég skellti mér því til Madríd í kennaranám.“

Í kjölfarið flutti Kolbrún með börnin frá Alicante svæðinu til Malaga, nánar tiltekið til Marbella.

„Við höfðum farið þangað í frí og féllum fyrir staðnum. Okkur langaði líka að upplifa meiri spænska menningu og ekki búa á túristastað. Það var töluvert púsl að finna húsnæði og skóla nálægt hvort öðru en á endanum gekk það upp. Ég skellti mér þá í annað jógakennaranám í Marbella og þar lærði ég hatha jóga. Þarna var ég komin inní jóga samfélagið og ég kynntist strax mikið af fólki. Börnunum leið vel og þetta var mikið ævintýri sem marga dreymir um en fáir framkvæma.“

Þegar komið var til Marbella var Kolbrún að eigin sögn undir mikilli fjárhagslegri pressu. Hún þurfti þess vegna að hugsa hratt og vera ákveðin með næstu skref.

„Raunveruleikinn blasti við: greiðsla fyrir verslunina og lagerinn bárust ekki eins og ég hafði vonast svo til. Ég hafði engan á Íslandi til að aðstoða mig við að rukka þetta inn. Þetta var flókið mál og tækifærið fjaraði út að ná þessu í gegn. Ég varð þess vegna að sleppa á því takinu og sætta mig við þetta, sem var vissulega erfitt.“

Á endanum fann Kolbrún skrifstofuhúsæði á fallegum stað á jarðhæð sem hún og dætur mínar breyttu með mikilli útsjónarsemi í fallegt jógastúdíó.

„Á þessum tíma þá átti ég ekki bíl og allt var keypt og græjað með strætóferðum og við gerðum allt sjálfar. Við parketlögðum og máluðum fallegar mandölur á veggina. Svo fundum sundum spegla í ruslahaug og fleira sem við gerðum flott. Ég skreytti með málverkunum mínum og síðustu peningarnir voru nýttir til að kaupa jógarólur, mottur og teppi. Ég fann síðan leið til að selja málverk og smá dótarí sem ég átti á Íslandi og fékk lán fyrir loftfestingunum fyrir rólurnar sem voru kostnaðasamar. Allt mitt hjarta var sett í fallega stúdíóið og smám saman komu nemendurnir til mín,“ segir Kolbrún eins og hún bendir á þá tekur tíma að markaðssetja sig á nýjum stað.

Kolbrún setti hjartað í jógastúdíóið.Aðsend

„Við börnin eyddum mörgum kvöldum í að setja auglýsingamiða á bíla og dreifðum víða. Stúdíóið mitt varð vinsælt með tímanum og tímarnir fullir og margir jógakennarar komu iðulega í tíma til mín. Ég var í besta líkamlega formi lífs míns og gat gert gólfæfingar sem fáir geta gert, eingöngu með hendurnar á gólfinu og fékk því aðra kennara í tæknikennslu til mín. Svo var ég líka með hugleiðslutíma, vann með unglingum og óléttum konum. Ég fékk til mín heimsþekktan orkuheilara sem var með námskeið hjá mér og notaði stúdíóið fyrir ýmislegt skemmtilegt.“

Það var hins vegar allt annað en auðvelt að standa skil á leigu fyrir bæði heimilið og stúdíóið.

„Við lifðum því mjög spart og ég tók mér aldrei frí. Vissulega var þetta basl fjárhagslega, en það kom svo margt annað sem vó uppá móti - eins og ströndin og útiveran sem við elskuðum.“

Covid setti strik í reikninginn

Síðan kom covid- og heimsfaraldurinn skall harkalega á Spáni. Herlögreglan var út um allt, það var útivistarbann og allar æfingarstöðvar og stúdíó voru lokuð. Skólahald var í óvissu. Kolbrún horfði upp á börnin sín verða óörugg í þessu ástandi. Að lokum var niðurstaðan að flytja tímabundið aftur til Íslands.

„Elsta dóttir mín var á Íslandi en hún hafði flutt þangað vegna náms og það hentaði henni betur að klára stúdentinn hér. Börnin mín höfðu í öll þessi ár eytt sumrunum á Íslandi, páskum og áramótum. Ég hafði hins vegar ekki komið til Íslands í rúm átta ár.

Ég hafði þá áður lokað stúdíóinu og leigt hentugra húsnæði fyrir okkur með góðri vinnuaðstæðu fyrir myndlistina og einnig var ég með góða aðstöðu til að vera með einkatíma fyrir tvo til þrjá í jóga. Ég gerði samning við flott gallerí í Puerto Banus með myndlistina og var aftur farin að mála meira. Ég hafði áður verið með umboðsmann fyrir myndlistina eins og gengur og gerist á þessu svæði en hann hafði haldið sýningar og kynnt mig ágætlega.

Ég hafði bara ekki náð að sinna bæði myndlistinni og rekstri jógastúdíó vel á sama tíma. Ég fékk líka mikið af fólki til mín í tarot lestur og það spann utan um sig og endaði með því að mér var boðið að vera í útvarpsþætti í Marbella alla fimmtudaga um andleg málefni sem var mjög gaman.“

Gífurlegir missir

Þegar Kolbrún kom til Íslands var planið upphaflega að stoppa stutt en dvölin ílengdist vegna covid og sonur hennar byrjaði strax í skóla hérlendis. Planið var samt alltaf að fara aftur „heim.“

Fljótlega eftir að hún kom til Íslands varð hún fyrir ömurlegri reynslu þegar flestallir aðgangar hennar á samfélagsmiðlum voru hakkaðir.

„Ég fékk aldrei reikningana aftur og þurfti að byrja uppá nýtt. Ég verð að viðurkenna að það var einn mesti missir sem ég hef upplifað. Í öll þessi ár þá hafði ég notað samfélagsmiða mikið í tengslum við vinnuna og ég var með mikið að greinum sem ég skrifað og myndum þar inni tengt jógastúdíóinu og börnunum og lífinu okkar á Spáni. Einnig var allt samskiptanetið mitt sem tengdist myndlist og jóga um allan heim þar inni sem. En svo var líka leiðinlegt að fólk hélt að ég hefði blokkað það, sem ég gerði auðvitað aldrei heldur var það ég sem varð ósýnileg um tíma.“

Kolbrún segist vona að hennar frásögn muni gefa öðrum kjark og þor til að skapa sín eigin tækifæri og sjá sjá ný tækifæri þegar dyr lokast.Aðsend

Um svipað leyti, í miðjum heimsfaraldri þurftu Kolbrún og börnin að takast á við fleiri áskoranir.

„Við þurftum að skella okkur í flýti til Spánar í miðjum faraldri vegna þess að það var brotist var inn á heimilið okkar þar. Við bjuggum í góðu og öruggu hverfi þar sem mörg húsnæði voru notuð sem auka heimili efnaðs fólks. Það var semsagt faraldur af hústökufólki sem stundaði þetta og það var búið að hertaka þrjú húsnæði í götunni. Nágrannar okkar tóku eftir þessu strax og létu okkur vita, hjálpuðu okkur og skiptu um sílender og vöktuðu húsnæðið þangað til við komum.

Við mættum og gerðum húsnæðið öruggara og tókum með okkur persónulega muni til öryggis Ég fékk leigjanda um tíma eftir að við fórum því planið var þá að leyfa syninum að klára skólann og mynda fjármagn á Íslandi til að kaupa jafnvel eign á Spáni. En ég ákvað síðan að nýta covid tímann á Íslandi til að gera upp eign til að selja með hagnaði.“

Síðan tók við eitt áfallið til viðbótar.

„Þegar leigjandinn fór úr húsnæðinu á Spáni þá var brotist aftur inn hjá okkur og við það misstum við allt sem við áttum þar. Heilt innbú og því sem fylgir eftir margra ára búsetu.“

Hún segir að upplifunin hafi vissulega hafa verið afskaplega sár en hún lét þó ekki deigan síga.

„Ég var þarna komin á fullt flug við það að gera upp eignir og tók ákvörðun að láta þetta ekki taka mig niður. Tíminn er svo dýrmætur og ég hef aldrei leyft mér að upplifa mig sem fórnarlamb þar sem tækifærin leynast allsstaðar. 

Ég er með ADHD og geri mér grein fyrir að mínar ákvarðanir eru oft teknar með fljótfærni þar sem ég er mjög markmiðamiðuð og læt ekkert stoppa mig og er mikil keppnismanneskja. Á sama hátt tek ég ábyrgð á því sem ég kem mér í með því að finna lausnir og framkvæma þær í stað þess að sitja kyrr og iðjulaus.“

Mikilvægt að vera lausnamiðaður

Kolbrún sneri aftur til Íslands, með ekkert í höndunum nema hugmyndir. En síðan þá er hún búin að vinna aftur upp það tap sem hún varð fyrir og byggja upp gott líf.

„Með ásetningnum einum og vinnusemi þá hef ég ásamt dætrum mínum gert upp nokkur húsnæði og núna síðast þá vorum við að fjárfesta í 320 fermetra m einbýlishúsi. Við ætlum að breyta því þó nokkuð og skipta niður í þrjú rými til að búa í saman um tíma þar sem það hentar okkur öllum.“

Í dag er Kolbrún með mörg járn í eldinum. Hún er með vinnustofu í Hafnarfirði og er um þessar mundir að halda málverka sýningu í Energiu í Smáralind.

Hún hefur að eigin sögn alltaf verið mjög næm og átt auðvelt með að tengjast inn á tilfinningar annara.

„Þessa reynslu nota ég í dag í starfi mínu hjá Sálarrannsóknarfélagi Íslands en ég vinn þar við heilun, miðlun og tarotlestur. Við erum flest öll að dröslast með allskonar þunga á herðum, full af ranghugmyndum sem tilheyra okkur ekki og með hjartað jafnvel fullt af sorg og eftirsjá og magann spenntan af ótta. En allt þetta getum við losað um með sannleikanum einum, ef ég fæ að orða það þannig í stuttu máli.“

Hún segist vona að hennar frásögn muni gefa öðrum kjark og þor til að skapa sín eigin tækifæri og sjá sjá ný tækifæri þegar dyr lokast.

„Við verðum að treysta því að við erum leidd áfram að góðu lífi og við megum ekki vera ekki hrædd við að færa fórnir. Ef við erum lausnamiðuð þá sköpum við tækifærin,“ segir hún og bætir við að það að vera lausnamiðaður snúist ekki um að leysa ráðgátur og vita öll rétt svörin, heldur að hafa kjark og hugrekki til að klára erfið verkefni.

„Það er vitneskjan um að þekkja og treysta á sjálfan sig í áskorunum lífsins. Að setja mörk og fylgja þeim eftir; koma sér frá erfiðum aðstæðum eða blanda sér inni í málefni þegar við á.”

Líkt og Kolbrún bendir á þá er það ákvörðun að komast heil í gegnum erfiðleika.

„Það eru til alskonar leiðir til að styrkja taugakerfið eins og útivera, hugleiðsla og fara í kalda pottinn. Ég geri mér grein fyrir að mín áföll eru minniháttar miðað við þá sem hafa misst heilsuna, ástvini eða börn sín.

Ég vill fara í gegnum lifið með fulla meðvitund og upplifa tilfinningarskalann. Ég tók þá ákvörðun að það hentaði mér að fara í gegnum hlutina án lyfja, til dæmis útaf kvíða, álagi og fleiru. Taugakerfið okkar er mikilvægt að varðveita. Við erum taugakerfið okkar. Að fara í göngutúr getur gert kraftaverk og sömuleiðis að njóta fegurð einfaldkeikans á þeim stað sem við erum stödd að hverju sinni.”






Fleiri fréttir

Sjá meira


×