Fótbolti

Tveir leik­menn utan hóps vegna klúðurs KSÍ

Valur Páll Eiríksson skrifar
Selma Sól er utan hóps vegna mistaka hjá starfsfólki KSÍ og bekkurinn þunnskipaðri en yfirleitt er.
Selma Sól er utan hóps vegna mistaka hjá starfsfólki KSÍ og bekkurinn þunnskipaðri en yfirleitt er. Gertty

Mistök hjá KSÍ gera að verkum að tveir leikmenn í landsliðshópi kvenna mega ekki taka þátt í leik dagsins við Austurríki í undankeppni EM. Sambandið sendi frá sér yfirlýsingu um málið fyrir skemmstu. Leikur liðanna hefst klukkan 16:00.

Athygli vekur að Ísland er aðeins með 21 leikmann á leikskýrslu í dag. Kristín Dís Árnadóttir er utan hóps en Orri Rafn Sigurðarson greindi frá því á samfélagsmiðlinum X að eitthvað klúður hafi orðið hjá KSÍ og hún einfaldlega ekki skráð í hóp Íslands. Því sé ekki heimilt að skrá hana á skýrslu.

Hér er bein textalýsing frá leik Austurríkis og Íslands.

KSÍ hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem greint er frá því að Selma Sól Magnúsdóttir sé utan hóps hjá Íslandi vegna samskonar klúðurs.

„Vegna tæknilegra örðugleika við skráningu í mótakerfa UEFA og afleiddra mannlegra mistaka verða þær Kristín Dís Árnadóttir og Selma Sól Magnúsdóttir ekki í leikmannahópi A kvenna gegn Austurríki í dag. Fulltrúar KSÍ hafa gert allt sem í þeirra valdi stendur til að leysa málið með fulltrúum UEFA, en án árangurs,“ segir í yfirlýsingu KSÍ.

Sveindís Jane Jónsdóttir leiðir línu Íslands í dag en hún glímdi við meiðsli undir lok leiktíðar í Þýskalandi eftir að hafa lent í hörðu samstuði við Kathrin Hendrich, liðsfélaga hennar í Wolfsburg, í leik Íslands og Þýskalands.

Guðrún Arnardóttir og Guðný Árnadóttir verða í bakvörðunum og Sandra María Jessen byrjar leikinn eftir frábæra byrjun hennar með Þór/KA í Bestu deildinni í sumar.

Byrjunarlið Íslands:

1. Fanney Inga Birkisdóttir

3. Sandra María Jessen

4. Glódís Perla Viggósdóttir (f)

6. Ingibjörg Sigurðardóttir

8. Alexandra Jóhannsdóttir

9. Diljá Ýr Zomers

10. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir

16. Hildur Antonsdóttir

18. Guðrún Arnardóttir

20. Guðný Árnadóttir

23. Sveindís Jane Jónsdóttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×