Real Madrid Evrópu­meistari í fimm­tánda sinn

Smári Jökull Jónsson skrifar
Toni Kroos lagði upp fyrra mark Real en hann var að leika sinn síðasta leik fyrir félagið.
Toni Kroos lagði upp fyrra mark Real en hann var að leika sinn síðasta leik fyrir félagið. Vísir/Getty

Real Madrid varð í kvöld Evrópumeistari í knattspyrnu í fimmtánda sinn eftir 2-0 sigur á Dortmund í úrslitaleik. Dortmund fór illa með mörg góð færi í fyrri hálfleiknum en reynsla leikmanna Real gerði gæfumuninn í síðari hálfleik.

Það var frábær stemning á Wembley-leikvanginum í Lundúnum í kvöld. Guli veggur stuðningsmanna Dortmund lét vel í sér heyra frá því löngu áður en leikurinn hófst og stuðningsmenn Real fjölmenntu sömuleiðis.

Fyrri hálfleikurinn þróaðist öfugt við það sem flestir bjuggust kannski við. Lið Dortmund var mun sterkari aðilinn og Karim Adeyemi fékk dauðafæri á 21. Mínútu þegar hann slapp aleinn í gegnum vörn spænska liðsins en Thibout Courtois í marki Real Madrid gerði vel í að loka á Adeyemi og færið rann út í sandinn.

Lið Dortmund hélt þó áfram að ógna. Tveimur mínútum eftir færi Adeyemi átti Niklas Fullkrug skot í innanverða stöngina úr dauðafæri og Adeyemi fékk annað gott færi skömmu síðar en Courtois varði vel.

Staðan í hálfleik var 0-0 og átti lið Real Madrid ekki skot á markrammann í fyrri hálfleiknum og leikmenn Dortmund hafa eflaust nagað sig í handarbökin á leið sinni til búningsklefanna að hafa ekki nýtt eitthvað af þeim góðu færum sem liðið fékk.

Real mætti sterkara til leiks í síðari hálfleik. Á fyrstu fimm mínútunum höfðu Toni Kroos og Dani Carvajal báðir átt hættulegar marktilraunir en leikmenn Dortmund héldu þó áfram að ógna líkt og í fyrri hálfleiknum.

Fullkrug fékk meðal annars gott skallafæri um miðjan síðari hálfleikinn en náði ekki að stýra boltanum í hornið og boltinn fór beint á Courtois. Það voru hins vegar reynsluboltar Real Madrid sem voru á bakvið fyrsta mark leiksins á 74. mínútu leiksins. Toni Kroos, sem var að leika sinn síðasta leik fyrir Real Madrid, tók þá hornspyrnu sem rataði beint á kollinn á Dani Carvajal sem skoraði af nærstönginni.

Markið virtist draga allan kraft úr liði Dortmund. Leikmenn Real Madrid komust í tvígang nálægt því að tvöfalda forystuna áður en Ian Maatsen gerði klaufaleg mistök í vörn Dortmund átta mínútum eftir mark Carvajal. Sending hans fór beint á Jude Bellingham, enska stjarnan fann Vinicius Jr. á fullri ferð í átt að marki og brasilíski töframaðurinn kláraði færið frábærlega framhjá Gregor Kobel í markinu. Real Madrid í kjörstöðu.

Niklas Fullkrug náði að skora örskömmu síðar en var réttilega dæmdur rangstæður eftir að hafa skallað boltann í mark Real. Eftir þetta fjaraði leikurinn hægt og rólega út. Toni Kroos fékk heiðursskiptingu undir lokin í sínum síðasta leik fyrir Real Madrid en hann mun leggja skóna á hilluna eftir Evrópumótið í Þýskalandi í sumar.

Lokatölur 2-0 og fimmtándi Evróputitill Real Madrid í höfn. Knattspyrnustjórinn Carlo Ancelotti var að vinna sinn fimmta Meistaradeildartitil á ferlinum og þann þriðja með Real Madrid. Ótrúlegt lið fullt af sigurvegurum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira