Innlent

Páll sýknaður

Árni Sæberg skrifar
Páll Vilhjálmsson bloggari er sýkn af kröfum Heimildarmanna.
Páll Vilhjálmsson bloggari er sýkn af kröfum Heimildarmanna. Vísir/Vilhelm

Páll Vilhjálmsson framhaldsskólakennari og bloggari hefur verið sýknaður af öllum kröfum tveggja blaðamanna á Heimildinni í Landsrétti.

Þeir Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Heimildarinnar, og Arnar Þór Ingólfsson, blaðamaður sama miðils, stefndu Páli fyrir meiðyrði og kröfðust ómerkingar á tvennum ummælum á bloggsíðu hans á vefsvæði Mbl.is.

Annars vegar voru það ummæli um að tvímenningarnir hefðu átt „aðild, beina eða óbeina“ að því að Páli Steingrímssyni, skipstjóra hjá Samherja, hefði verið byrlað og síma hans stolið. Hins vegar voru það ummæli Páls um að saksóknari gæfi út ákæru á hendur blaðamönnunum.

Í Héraðsdómi Reykjavíkur var Páll dæmdur til að greiða blaðamönnunum 300 þúsund krónur, hvorum fyrir sig, auk málskostnaðar upp á 700 þúsund krónur. Landsréttur sýknaði Pál af öllum kröfum blaðamannanna, þegar dómur var kveðinn upp klukkan 14. Málskostnaður fellur niður á báðum dómstigum.

Þá voru ummæli hans dæmd dauð og ómerk í héraði en ekki Landsrétti.

Beinskeytt og óvægin ummæli sett fram í góðri trú

Í dómi Landsréttar segir að þótt ummæli Páls væru sannarlega beinskeytt og óvægin, yrði að líta til þeirrar staðreyndar að Arnar Þór og Þórður Snær hefðu haft stöðu sakborninga og sætt, þegar ummælin féllu, rannsókn lögreglu vegna mögulegrar aðildar, beinnar eða óbeinnar, að brotum á ákvæðum hegningarlaga. Þá lægi fyrir að þeirri sakamálarannsókn væri ekki lokið.

Líta yrði svo á að ummæli Páls hefðu falið í sér staðhæfingu um staðreynd og Páll hefði verið í góðri trú um að nægileg stoð væri fyrir þeim staðhæfingum þegar þau voru látin falla. 

Blaðamenn megi þola gagnrýni

Páll hefði verið þátttakandi í almennri umræðu um mikilvægt samfélagslegt málefni sem erindi ætti við almenning og hefði af þeim sökum notið rúms tjáningarfrelsis á meðan Arnar Þór og Þórður Snær mættu sem blaðamenn og opinberar persónur gera ráð fyrir að þurfa að þola hvassa og óvægna gagnrýni í kjölfar eigin skrifa. 

Þegar til alls þessa væri litið yrði lagt til grundvallar að Páll hefði mátt vera í góðri trú um að nægjanlegt tilefni væri til ummælanna og að þau hefðu, þegar litið væri til hinnar hvössu umræðu sem málið hefði vakið, ekki gengið svo langt að nauðsyn bæri til þess í lýðræðislegu samfélagi, þar sem tjáningarfrelsi er í hávegum haft, að ómerkja þau.

Annað mál á leið fyrir Landsrétt

Páll var dæmdur til að greiða þriðja Heimildarmanninum, Aðalsteini Kjartanssyni, 450.000 krónur í miskabætur og 1,4 milljón króna í málskostnað vegna átta ummæla, sem voru dæmd dauð og ómerk þann 14. apríl síðastliðinn. Ummælin voru eftirfarandi.

1. 2. apríl 2022::

„Verðlaunin fengu þeir fyrir fréttir sem aflað var með glæpum, byrlun og gagnastuldi“.

„…og Aðalsteinn Kjartansson á stundinni eiga aðild, beina eða óbeina, að byrlun Páls skiptstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans“.

2. 25. ágúst 2022:

„Leikritið um að Aðalsteinn ynni á Stundinni, en ekki RÚV, var hluti af samráði um að byrla og stela til að ná í fréttir“.

3. 28. október 2022:

„Aðalsteinn er þrautþjálfaður í blekkingum.“

„Aðalsteinn var sendur á Stundina til að taka við þýfinu og koma í umferð“.

„Engin rannsóknarvinna fór fram, aðeins byrlun og stuldur“.

4. 15. febrúar 2023:

„Fimm blaðamenn RÚV og Heimildarinnar, áður Stundin og Kjarninn, fá birta ákæru næstu tvær vikurnar vegna aðildar að byrlun, gagnastuldi, stafrænu kynferðisofbeldi og broti á friðhelgi tveggja starfsmanna Samherja, Páls Steingrímssonar og Örnu McClure. Eyþór Þorbergsson aðstoðarsaksóknari lögreglunnar á Norðurlandi eystra staðfesti í viðtali við danska blaðamanninn Lasse Skytt að ákærur yrðu birtar fyrir lok mánaðar“.

„Sjötti sakborningurinn er veika konan sem blaðamennirnir fengu til að byrla Páli, stela síma hans á meðan skipstjórinn var í öndunarvél og færa blaðamönnum sem biðu ránsfengsins á Efstaleiti…“.

5. 27. febrúar 2023:

„Nýr vitnisburður, og gögn sem styðja þá frásögn, sýna fram á að blaðamennirnir hafi tekið þátt í að skipuleggja byrlunina, verið með í ráðum þegar í upphafi“.

„Tölvupóstar sem staðfesta aðild blaðamanna að undirbúningi tilræðisins eru ekki lengur til. Þeim var eytt.

„En það bráðlá á að Aðalsteinn færi yfir á Stundina til að vinna úr stolnu gögnum er kæmu á RÚV. Þá átti bara eftir að byrla skipstjóranum og stela síma hans þegar Aðalsteinn flutti blaðamennsku sína af RÚV yfir á Stundina“.

„Ef einhver þessara samskipta eru til á texta, t.d. í tölvupóstum, er líklegt að sú sönnun haldi fyrir dómi. Annars er um að ræða kringumstæðurök fyrir aðild blaðamanna að skipulagningu tilræðisins auk vitnisburðar.”

6. 21. mars 2023:

„Það er einnig þekkt staðreynd að varaformaður BÍ, Aðalsteinn Kjartansson, var fluttur af RÚV á Stundina…“

„Rök standa til að blaðamenn hafi skipulagt byrlun gagngert til að komast yfir síma skipstjórans“.

„Tímann notuðu þeir til að hylja slóðina, eyða gögnum“.

7. 22. mars 2023:

„Blaðamennirnir voru vel meðvitaðir um að hafa framið alvarlegt lögbrot og kappkostuðu að eyða sönnunargögnum“.

„Blaðamenn RSK-miðla nýttu sér yfirburða stöðu sína og virðast hafa haft öll ráð veiku konunnar í hendi sér“.

8. 14. apríl 2023:

„RSK-miðlar nýttu sér skotleyfið áður en það var gefið út. Þeir misnotuðu andlega veika konu til að byrla og stela.“

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Páll segir dóminn efla sig frekar en hitt

Páll Vilhjálmsson framhaldsskólakennari og bloggari var í dag sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir ærumeiðingar um Aðalstein Kjartansson, blaðamann Heimildarinnar. Hann ætlar að áfrýja málinu.

„Þetta eru ærumeiðingar, Gunnar Ingi!“

„Þetta eru ærumeiðingar, Gunnar Ingi!“ hrópaði Páll skipstjóri Steingrímsson að Gunnari Inga Jóhannssyni lögmanni Aðalsteins Kjartanssonar blaðamanns. Dómari þurfti að sussa á Pál svo málflutningur gæti haldið áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×