Fótbolti

Fjögurra mánaða bann fyrir að sýna ekki stuðning við hin­segin fólk

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Hér sést greinilega hvernig Camara huldi merkið ólíkt öðrum leikmönnum.
Hér sést greinilega hvernig Camara huldi merkið ólíkt öðrum leikmönnum. vísir / getty

Mohamed Camara, leikmaður AS Monaco, hefur verið dæmdur í fjögurra mánaða bann af franska knattspyrnusambandinu fyrir að hylja merki til stuðnings LGBTQ+ samfélagsins á treyju sinni.

Öll lið frönsku deildarinnar sýndu hinsegin fólki stuðning í lokaumferðinni eins og þau hafa gert síðustu ár. Leikmenn Monaco voru allir klæddir treyjum með rauðum kross á bringunni gegn Nantes, í leik sem Monaco vann 4-0. Camara greip til eigin ráða og setti hvítt límband yfir krossinn.

Hann bar fyrir sig að þetta væri gert af trúarlegum ástæðum en Camara er múslimi, honum þótti þó ekki ástæða til að hylja veðmálafyrirtækið sem auglýsir á stuttbuxum Monaco, en veðmál ganga sannarlega gegn íslömskum gildum.

Sömuleiðis neitaði Camara að vera með á liðsmynd þar sem leikmenn Monaco héldu upp skilti til stuðnings við alþjóðlegan dag gegn hinsegin hatri.

Þetta athæfi Camara reitti marga til reiði, þeirra á meðal íþróttamálaráðherra Frakklands.

Camara hefur nú hlotið fjögurra mánaða keppnisbann frá franska knattspyrnusambandinu. Framkvæmdastjóri Monaco segir félagið samþykkja bannið og muni ekki áfrýja.

Þetta er í fyrsta sinn sem franska knattspyrnusambandið dæmir leikmann í bann fyrir að taka ekki þátt í stuðningi við LGBTQ+ samfélagið. Framtakið hefur verið hluti af lokaumferð deildarinnar síðan 2021.

Idrissa Gana Gueye, leikmaður PSG, neitaði sjálfur að taka þátt í lokaumferðunum 2021 og 2022 þegar PSG spilaði með regnbogalitaðar tölur aftan á treyjunni. Þá ákvað Toulouse á síðasta ári að skilja nokkra leikmenn eftir utan hóps þegar heyrðist af því að þær myndu ekki styðja málstaðinn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×