Erlent

Ó­lík­legt að Trump fari í fangelsi

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump í dómsal í New York.
Donald Trump í dómsal í New York. AP/Dave Sanders

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, var í gær sakfelldur fyrir skjalafals til að hylma yfir greiðslur til klámstjörnu fyrir forsetakosningarnar 2016, með því markmiði að afvegaleiða kjósendur. Ólíklegt þykir að Trump verði dæmdur í fangelsi, þó það sé möguleiki, en lögmaður hans segir að forsetinn fyrrverandi ætli að áfrýja sakfellingunni.

Þá reikna sérfræðingar með því að sakfellingin muni hafa lítil áhrif á forsetakosningarnar í nóvember, þó Trump sé fyrsti forseti Bandaríkjanna sem sakfelldur er í sakamáli. Hvort áhrifin verða einhver og hver þau verða mun koma í ljós í skoðanakönnunum sem framkvæmdar verða á næstu vikum.

Dómsuppkvaðning á að fara fram þann 11. júlí en fyrir það mun Trump þurfa að fara í viðtal þar sem farið verður yfir sögu hans, geðheilsu og forsendur þessa máls og verða gögn úr því viðtali notuð við að ákvarða refsingu Trumps.

Trump var sakfelldur í 34 ákæruliðum. Þessir ákæruliðir eru allir í minnst alvarlega flokki New York ríkis og stendur Trump frammi fyrir sextán mánaða til fjögurra ára fangelsi. Sérfræðingar segja þó ólíklegt að hann fari bak við lás og slá, þar sem hann er 77 ára gamall og þetta er í fyrsta sinn sem hann er sakfelldur fyrir glæp, samkvæmt frétt Washington Post.

Juan Merchan, dómari, gæti dæmt Trump á skilorð en það fæli í sér að forsetinn þyrfti leyfi frá yfirvöldum New York til að yfirgefa ríkið. Trump býr nú í Flórída og stendur í kosningabaráttu og er þess vegna ólíklegur til að vilja verja miklum tíma í New York.

Merchan gæti einnig sektað Trump eða sleppt honum, með því skilyrði að hann brjóti ekki aftur af sér.

Trump stendur enn frammi fyrir þremur ákærum en þessi í New York var talin sú minnst alvarlegasta af þeim. Ólíklegt er að hin málin þrjú rati í dómsal fyrir forsetakosningarnar í nóvember.

Forsetinn og verjendur hans hafa lagt mikið kapp á að tefja öll málin í þeirri von að hann vinni forsetakosningarnar. Þá mun hann eiga auðvelt með að beita valdi embættisins til að stöðva málaferlin eða jafnvel náða sjálfan sig.

Donald Trump hefur verið ákærður fjórum sinnum.

Jack Smith, sérstakur rannsakandi dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, hefur ákært Trump í tveimur málum. Annað þeirra snýr að viðleitni hans til að snúa úrslitum forsetakosninganna í Bandaríkjunum árið 2020 á landsvísu. Réttarhöldin áttu að hefjast 4. mars en hefur verið frestað um óákveðinn tíma á meðan hæstiréttur tekur kröfu Trumps um algera friðhelgi til skoðunar.

Hitt snýr að opinberum gögnum og leynilegum skjölum sem hann tók með sér úr Hvíta húsinu þegar hann flutti til Flórída og neitaði að afhenta. Réttarhöldin áttu að hefjast 20. maí en þeim hefur einnig verið frestað um óákveðinn tíma.

Hann hefur einnig verið ákærður í New York fyrir brot á lögum um kosningar vegna þagnargreiðslu til klámmyndaleikkonunnar Stormy Daniels. Hann var sakfelldur í öllum ákæruliðum og bíður refsingar.

Trump hefur þar að auki verið ákærður í Georgíu og fyrir að reyna að snúa úrslitum kosninganna þar. Ekki er búið að ákveða hvenær réttarhöldin í Georgíu eiga að hefjast en ólíklegt er að þau hefjist fyrir kosningarnar, þar sem hæstiréttur Georgíu hefur áfrýjun sem tengist réttarhöldunum til skoðunar.

Verði Trump dæmdur í fangelsi er ljóst að við það sköpuðust fordæmalausar aðstæður. Lífvarðasveit forseta Bandaríkjanna þarf samkvæmt lögum að verja fyrrverandi forseta allan tíma sólarhringsins og felur það í sér að þeir þyrftu að fylgja Trump og vernda hann í fangelsi.

Samkvæmt frétt New York Times höfðu forsvarsmenn lífvarðasveitanna undirbúið þann mögulega þegar Merchan hótaði að fangelsa Trump í apríl vegna ummæla hans um vitni og kviðdómendur í málinu.


Tengdar fréttir

Trump sak­felldur fyrir skjala­fals í þagnar­greiðslu­máli

Kviðdómur í New York sakfelldi Donald Trump fyrir að falsa skjöl til þess að hylma yfir greiðslur til klámstjörnu fyrir forsetakosningarnar árið 2016. Trump, sem var fundinn sekur í öllum ákæruliðum, segir niðurstöðuna „skammarlega“.

Stígur ekki til hliðar vegna umdeildra fána

Samuel A. Alito, dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna, ætlar ekki að segja sig frá tveimur málum sem dómstóllinn er með til skoðunar og snúa að árásinni á þinghúsi Bandaríkjanna þann 6. janúar 2021. Hann hefur verið krafinn um það eftir að fregnir bárust af því að eftir árásina var tveimur fánum sem stuðningsmenn Donalds Trump hafa tekið að sér, hafa verið flaggað við hús í hans eigu.

Kviðdómendur leggjast undir feld í dag

Kviðdómendur í þagnargreiðslumál Donalds Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, í New York munu leggjast undir feld í dag. Í kjölfarið munu þeir komast að niðurstöðu í fyrsta sakamáli Bandaríkjanna gegn fyrrverandi forseta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×