Golf

Hreinasta mar­tröð hjá þeirri bestu í heimi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nelly Korda átti erfiðan fyrsta dag á opna bandaríska meistaramótinu og er í 137. sæti á tíu höggum yfir pari.
Nelly Korda átti erfiðan fyrsta dag á opna bandaríska meistaramótinu og er í 137. sæti á tíu höggum yfir pari. AP/Matt Rourke

Nelly Korda klúraði nánast möguleikanum á því að vinna opna bandaríska meistaramótið í golfi á einni hræðilegri holu.

Það sem meira er að þetta var par þrjú hola sem reyndist hinni 25 ára gömlu Korda algjör martröð.

Korda vann fyrsta risamót ársins, Chevron Championship, og hefur líka unnið PGA-mótið einu sinni. Hún hefur aftur á móti aldrei unnið opna bandaríska og endaði bara í 64. sætinu í fyrra. Korda hafði unnið sex af síðustu sjö mótum sínum og var talin vera langsigurstranglegust á mótinu.

Fyrsta hringnum lauk í gær og hann spilaði Korda á tíu höggum yfir pari.

Það var tólfta holan sem eyðilagði allt saman en Korda hreinlega brann yfir á þessari holu.

Korda lék holuna á tíu höggum eða sjö höggum yfir pari. Hún sló boltann meðal annars þrisvar sinnum í vatnið.

„Það er ljóst að fara par þrjú holu á tíu höggum er ekki mikið að hjálpa þér á opna bandaríska mótinu. Þetta var bara slæmur dagur á skrifstofunni. Ég er bara manneskja og það eiga allir slæma daga,“ sagði Korda.

Hún er í 137. sæti og alls tólf höggum á eftir hinni japönsku Yuka Saso sem er í forystusætinu eftir fyrsta keppnisdaginn.

„Ég gat eiginlega ekki gert neitt við þessu. Átti bara slæmar vippur aftur og aftur,“ sagði Korda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×