Uppgjör: Valur - Grindavík 80-73 | Valsmenn Íslandsmeistarar í fjórða sinn Smári Jökull Jónsson skrifar 29. maí 2024 21:18 Kristófer Acox, fyrirliði Vals, lyftir Íslandsmeistarabikarnum. vísir/anton Valur er Íslandsmeistari í körfuknattleik karla eftir 80-73 sigur á Grindavík í oddaleik í N1-höllinni að Hlíðarenda. Þetta er fjórði Íslandsmeistaratitill Valsmanna í karlaflokki. Stemmningin í N1-höllinni að Hlíðarenda í kvöld var algjörlega frábær enda setið um hvern einasta miða á þennan úrslitaleik. Grindvíkingar fjölmenntu þrátt fyrir að eldgos hafi hafist við heimabæinn fyrr í dag og sungu sem enginn væri morgundagurinn frá því meira en klukkustund fyrir leik. Gestirnir áttu fyrstu sókn leiksins og þar urðu Valsmenn heldur betur fyrir áfalli. DeAndre Kane leikmaður Grindavíkur keyrði þá á körfuna og lentu hann og Kristófer Acox í árekstri. Kristófer virtist lenda illa og hélt um hnéð eftir að hann lenti. Börur þurfti til að koma landsliðsmanninum af velli og kom hann ekkert meira við sögu. Kristófer Acox borinn af velliVísir/Anton Brink Valsmenn létu þetta hins vegar ekki á sig fá. Með Kristin Pálsson og Taiwo Badmus í fararbroddi tóku þeir frumkvæðið og leiddu 27-22 eftir fyrsta leikhlutann. Valsliðið hélt áfram í öðrum leikhluta og bætti við forskotið. Það varð mest þrettán stig en Grindvíkingar bitu aðeins frá sér skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks og staðan í hálfleik var 49-40. Valsmenn héldu frumkvæðinu í seinni hálfleik. Þeir lentu í miklum villuvandræðum og á tímabili var staðan 21-9 í dæmdum villum og fannst Grindvíkingum á sig hallað. Staðan eftir þriðja leikhlutann var 68-57 Val í vil og stemmningin með heimamönnum. Í fjórða leikhlutanum fengu Grindvíkingar tækifærin til að minnka muninn. Þeir settu skotin sín hins vegar ekki niður þegar á þurfti að halda og það hjálpaði ekki til að lykilmaðurinn DeAndre Kane fékk sína fimmtu villu í upphafi leikhlutans. Valsmenn eru Íslandsmeistarar í körfuknattleik.Vísir/Anton Brink Forskot Valsmanna var í kringum tíu stigin lengst af í lokafjórðungnum en þegar skammt var niður náðu Grindvíkingar að minnka muninn niður í fimm stig. Þeim mistókst hins vegar að minnka hann enn frekar þrátt fyrir ágæt tækifæri og það var Kári Jónsson sem innsiglaði 80-73 sigur Vals með körfu þegar rúmar tuttugu sekúndur voru eftir. Valsmenn fögnuðu gríðarlega í lokin sínum fjórða Íslandsmeistaratitli. Liðið hefur lent í áföllum á leiktíðinni, misst lykilmenn út vegna meiðsla en höfðu alltaf svör til að bregðast við. Sigurinn er enn ein rósin í hnappagat Finns Freys Stefánssonar þjálfara sem var að vinna sinn sjöunda Íslandsmeistaratitil sem þjálfari. Atvik leiksins Það varð strax í fyrstu sókn leiksins þegar Kristófer Acox meiddist. Kristófer er einn besti leikmaður deildarinnar og það mátti sjá angistarsvipinn á stuðningsmönnum Vals í stúkunni þegar landsliðsmaðurinn var borinn af velli. Valsmenn tvíefldust hins vegar við þetta. Það er í raun ótrúlegt að fjarvera Kristófers hafi ekki haft meiri áhrif en raun bar vitni og segir allt um hversu góður þjálfari Finnur Freyr Stefánsson er að ná að bregðast við þessu áfalli. Stjörnur og skúrkar Taiwo Badmus var stórkostlegur í liði Vals. Hann þurfti að taka á sig aukna ábyrgð eftir að Kristófer meiddist og tók henni fagnandi. Hann skoraði 31 stig, tók 14 fráköst og fór fyrir sínum mönnum með baráttu og dugnaði. Kristinn Pálsson var sömuleiðis góður með 17 stig og Frank Booker gríðarlega mikilvægur, tók mikilvæg fráköst og barðist vel. Þá átti Hjálmar Stefánsson góðan leik sömuleiðis. Það var hart barist að hlíðarenda í kvöld.Vísir/Anton Brink Það hitti enginn leikmaður Grindavíkur á sinn besta dag. Liðið var aðeins með 25% þriggja stiga nýtingu og Dedrick Basile og DeAndre Kane náðu ekki að draga Grindavíkurvagninn eins og þeir hefðu þurft að gera. Dómararnir Kristinn Óskarsson, Sigmundur Már Herbertsson og Davíð Tómas Tómasson sáu um dómgæsluna í kvöld en þeir eru okkar reyndasta dómarapar. Þeir flautuðu mjög mikið í fyrri hálfleiknum og á köflum virtust villurnar sem dæmdar voru vera frekar ódýrar. Eftir fyrri hálfleikinn voru Grindvíkingar í villuvandræðum enda komnir með fjórtán villur en Valsmenn átta og á tímabili var staðan í villum 20-9 í síðari hálfleik. Lína dómaranna í leiknum var sérstök. Þeir ætluðu sér að taka stjórnina í byrjun en tókst það ekki og misstu leikinn úr höndunum á sér. Stemning og umgjörð Það var frábær stemning í N1-höllinni í kvöld og umgjörð Valsmanna mjög góð. Stúkurnar voru troðfullar, setið fyrir aftan körfur og á gólfsætum við hliðarlínuna sömuleiðis. Stuðningsmenn beggja liða voru til fyrirmyndar og létu vel í sér heyra allan leikinn. Viðtöl Subway-deild karla Valur Grindavík
Valur er Íslandsmeistari í körfuknattleik karla eftir 80-73 sigur á Grindavík í oddaleik í N1-höllinni að Hlíðarenda. Þetta er fjórði Íslandsmeistaratitill Valsmanna í karlaflokki. Stemmningin í N1-höllinni að Hlíðarenda í kvöld var algjörlega frábær enda setið um hvern einasta miða á þennan úrslitaleik. Grindvíkingar fjölmenntu þrátt fyrir að eldgos hafi hafist við heimabæinn fyrr í dag og sungu sem enginn væri morgundagurinn frá því meira en klukkustund fyrir leik. Gestirnir áttu fyrstu sókn leiksins og þar urðu Valsmenn heldur betur fyrir áfalli. DeAndre Kane leikmaður Grindavíkur keyrði þá á körfuna og lentu hann og Kristófer Acox í árekstri. Kristófer virtist lenda illa og hélt um hnéð eftir að hann lenti. Börur þurfti til að koma landsliðsmanninum af velli og kom hann ekkert meira við sögu. Kristófer Acox borinn af velliVísir/Anton Brink Valsmenn létu þetta hins vegar ekki á sig fá. Með Kristin Pálsson og Taiwo Badmus í fararbroddi tóku þeir frumkvæðið og leiddu 27-22 eftir fyrsta leikhlutann. Valsliðið hélt áfram í öðrum leikhluta og bætti við forskotið. Það varð mest þrettán stig en Grindvíkingar bitu aðeins frá sér skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks og staðan í hálfleik var 49-40. Valsmenn héldu frumkvæðinu í seinni hálfleik. Þeir lentu í miklum villuvandræðum og á tímabili var staðan 21-9 í dæmdum villum og fannst Grindvíkingum á sig hallað. Staðan eftir þriðja leikhlutann var 68-57 Val í vil og stemmningin með heimamönnum. Í fjórða leikhlutanum fengu Grindvíkingar tækifærin til að minnka muninn. Þeir settu skotin sín hins vegar ekki niður þegar á þurfti að halda og það hjálpaði ekki til að lykilmaðurinn DeAndre Kane fékk sína fimmtu villu í upphafi leikhlutans. Valsmenn eru Íslandsmeistarar í körfuknattleik.Vísir/Anton Brink Forskot Valsmanna var í kringum tíu stigin lengst af í lokafjórðungnum en þegar skammt var niður náðu Grindvíkingar að minnka muninn niður í fimm stig. Þeim mistókst hins vegar að minnka hann enn frekar þrátt fyrir ágæt tækifæri og það var Kári Jónsson sem innsiglaði 80-73 sigur Vals með körfu þegar rúmar tuttugu sekúndur voru eftir. Valsmenn fögnuðu gríðarlega í lokin sínum fjórða Íslandsmeistaratitli. Liðið hefur lent í áföllum á leiktíðinni, misst lykilmenn út vegna meiðsla en höfðu alltaf svör til að bregðast við. Sigurinn er enn ein rósin í hnappagat Finns Freys Stefánssonar þjálfara sem var að vinna sinn sjöunda Íslandsmeistaratitil sem þjálfari. Atvik leiksins Það varð strax í fyrstu sókn leiksins þegar Kristófer Acox meiddist. Kristófer er einn besti leikmaður deildarinnar og það mátti sjá angistarsvipinn á stuðningsmönnum Vals í stúkunni þegar landsliðsmaðurinn var borinn af velli. Valsmenn tvíefldust hins vegar við þetta. Það er í raun ótrúlegt að fjarvera Kristófers hafi ekki haft meiri áhrif en raun bar vitni og segir allt um hversu góður þjálfari Finnur Freyr Stefánsson er að ná að bregðast við þessu áfalli. Stjörnur og skúrkar Taiwo Badmus var stórkostlegur í liði Vals. Hann þurfti að taka á sig aukna ábyrgð eftir að Kristófer meiddist og tók henni fagnandi. Hann skoraði 31 stig, tók 14 fráköst og fór fyrir sínum mönnum með baráttu og dugnaði. Kristinn Pálsson var sömuleiðis góður með 17 stig og Frank Booker gríðarlega mikilvægur, tók mikilvæg fráköst og barðist vel. Þá átti Hjálmar Stefánsson góðan leik sömuleiðis. Það var hart barist að hlíðarenda í kvöld.Vísir/Anton Brink Það hitti enginn leikmaður Grindavíkur á sinn besta dag. Liðið var aðeins með 25% þriggja stiga nýtingu og Dedrick Basile og DeAndre Kane náðu ekki að draga Grindavíkurvagninn eins og þeir hefðu þurft að gera. Dómararnir Kristinn Óskarsson, Sigmundur Már Herbertsson og Davíð Tómas Tómasson sáu um dómgæsluna í kvöld en þeir eru okkar reyndasta dómarapar. Þeir flautuðu mjög mikið í fyrri hálfleiknum og á köflum virtust villurnar sem dæmdar voru vera frekar ódýrar. Eftir fyrri hálfleikinn voru Grindvíkingar í villuvandræðum enda komnir með fjórtán villur en Valsmenn átta og á tímabili var staðan í villum 20-9 í síðari hálfleik. Lína dómaranna í leiknum var sérstök. Þeir ætluðu sér að taka stjórnina í byrjun en tókst það ekki og misstu leikinn úr höndunum á sér. Stemning og umgjörð Það var frábær stemning í N1-höllinni í kvöld og umgjörð Valsmanna mjög góð. Stúkurnar voru troðfullar, setið fyrir aftan körfur og á gólfsætum við hliðarlínuna sömuleiðis. Stuðningsmenn beggja liða voru til fyrirmyndar og létu vel í sér heyra allan leikinn. Viðtöl
Leikjahæst frá upphafi: „Loksins núna að hætta að gráta, þannig ekki láta mig byrja aftur“ Körfubolti
Leikjahæst frá upphafi: „Loksins núna að hætta að gráta, þannig ekki láta mig byrja aftur“ Körfubolti