Erlent

Flug­vélin féll um 54 metra á fimm sekúndum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mikill viðbúnaður var á flugvellinum í Bangkok þegar vél Singapore Airlines lenti eftir alvarlegt slys í háloftunum.
Mikill viðbúnaður var á flugvellinum í Bangkok þegar vél Singapore Airlines lenti eftir alvarlegt slys í háloftunum. AP/Sakchai Lalit

Fyrstu niðurstöður rannsóknar eftirlitsaðila á flugslysinu sem átti sér stað í flugi vélar Singapore Airlines frá Lundúnum til Singapore fyrir viku síðan benda til þess að vélin hafi fallið um 54 metra á fimm sekúndum.

Breskur maður lést og tugir slösuðust þegar atvikið átti sér stað, meðal annars Aron Matthíasson, sem var í vinnuferð fyrir Marel og á leið til Nýja-Sjálands.

Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum Transport Safety Investigation Bureau virðist sem skyndilegar og snöggar þyngdaraflsbreytingar yfir suðurhluta Mjanmar hafi leitt til fallsins, sem var til þess að áhafnarmeðlimir og farþegar sem ekki voru í sætisbeltum slösuðust.

Eftir að flugmenn vélarinnar voru upplýstir um að fólk hefði slasast hefði sú ákvörðun verið tekin að lenda vélinni á Suvarnabhumi-flugvellinum í Bangkok. Frekari ókyrrðar hefði ekki orðið vart á leiðinni þangað.

Alls voru 211 farþegar um borð í vélinni og áhöfnin taldi átján. Geoff Kitchen, 73 ára, er talinn hafa látist af völdum hjartaáfalls í kjölfar atviksins en 104 voru fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar.

Sex reyndust með áverka á höfði og/eða heila, 22 með áverka á hrygg og þrettán með annars konar áverka.

Talsmenn Singapore Airlines segja félagið munu gera allt til að styðja þá sem voru um borð í vélinni, þar á meðal standa straum af sjúkrahúskostnaði.

Frétt BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×