Innlent

Mót­mæla harð­lega fyrir­ætlun Isavia um gjald­töku við flug­völlinn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Isavia hyggst taka upp gjaldskyldu við Egilsstaðaflugvöll, í óþökk Múlaþings.
Isavia hyggst taka upp gjaldskyldu við Egilsstaðaflugvöll, í óþökk Múlaþings. Vísir/Vilhelm

Byggðaráð Múlaþings mótmælir harðlega fyrirhugaða gjaldtöku á bílastæðum við Egilsstaðarflugvöll og lýsir óánægju með vinnubrögð Isavia í málinu.

Þetta kemur fram í fundargerð en ráðið fundaði í morgun.

Þar segir að ráðið lýsi furðu sinni á því að Isavia skuli ekki hafa tekið tillit til þeirra ábendinga sem fulltrúar sveitarfélagsins komu á framfæri á byggðarráðsfundi með fulltrúum stjórnar og framkvæmdastjórnar innanlandsflugvalla Isavia.

„Fyrirhuguð gjaldtaka er viðbótarkostnaður við dýran ferðakostnað íbúa Austurlands við að sækja mikilvæga heilbrigðisþjónustu og aðra þjónustu sem því miður er ekki boðið upp á í landshlutanum,“ segir í fundargerðinni.

Byggðarráð samþykkti samhljóða að fela sveitarstjóra að leita álits lögfræðings um lögmæti innheimtunnar á grundvelli þess að ekki liggi fyrir samþykki innviðaráðuneytisins. Þá verður óskað eftir fundi með innviðaráðherra og því beint til sveitastjórnar Múlaþings að taka málið upp á næsta fundi.

Meðal gagna sem fylgja fundargerðinni er auglýsing frá Isavia um hið nýja fyrirkomulag. Þar segir að nýtt bílastæðakerfi með aðgangsstýringu sem les bílnúmer verði tekið í notkun á bílastæðunum við Egilsstaðaflugvöll innan tíðar. 

Markmiðið með innleiðingu kerfisins sé að „tryggja gestum Egilsstaðaflugvallar bætta þjónust og ferðaupplifun“.

Fyrstu fimm klukkustundirnar verða samkvæmt plagginu ókeypis en heill dagur kosta 1.750 krónur, hver dagur eftir sjö daga 1.350 krónur og hver dagur eftir fjórtán daga 1.200 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×