Körfubolti

Leik­menn handboltaliðsins heiðurs­gestir í kvöld

Valur Páll Eiríksson skrifar
Rík ástæða er til að klappa fyrir handboltaliði Vals í kvöld.
Rík ástæða er til að klappa fyrir handboltaliði Vals í kvöld. Vísir/Diego

Leikmenn handboltaliðs Vals verða heiðursgestir á oddaleik Vals við Grindavík um Íslandsmeistaratitil karla í körfubolta að Hlíðarenda í kvöld. Þetta staðfestir formaður körfuknattleiksdeildar.

Valur varð fyrst íslenskra handboltaliða Evrópumeistari er liðið hafði betur gegn Olympiakos í Aþenu síðustu helgi. Liðið kom heim í fyrradag og mætir beint á Hlíðarenda í kvöld.

„Handboltasnúðarnir náðu glæsilegum árangri. Þeir hafa nú verið að mæta vel á leiki hjá okkur, og við hjá þeim. Þeir fá sérmerkt sæti og það verður vonandi klappað fyrir þeim þegar þeir verða heiðraðir. Það verður bara gaman,“ segir Svali Björgvinsson, formaður körfuknattleiksdeildar, í samtali við Vísi.

Svali Björgvinsson, formaður körfuknattleiksdeildar ValsVísir/Skjáskot

Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Valsliðsins, er spenntur fyrir kvöldinu.

„Það er mikið um að vera í þessari viku, einhverjar móttökur og gaman. Við förum að styðja körfuboltann og verðum heiðursgestir. Það oddaleikur á morgun, troðið hús og gaman,“ sagði Óskar Bjarni við Vísi í gær.

Leikur Vals og Grindavíkur hefst klukkan 19:15 í kvöld. Hann verður sýndur beint á Stöð 2 Sport og hefst bein útsending klukkustund fyrir leik, klukkan 18:15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×