Innlent

Ferða­fólki bjargað úr sjálf­heldu við Þiðriksvallavatn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Meðfylgjandi er ljósmynd frá aðgerðum í dag þar sem sjá má björgunarmann í línu komin niður til aðstoðar.
Meðfylgjandi er ljósmynd frá aðgerðum í dag þar sem sjá má björgunarmann í línu komin niður til aðstoðar.

Björgunarsveitin Dagrenning á Hólmavík var boðuð út í dag klukkan hálf eitt eftir að ferðafólk sem var á göngu inn með Þiðriksvallavatni, inn af Hólmavík, óskaði eftir aðstoð.

Fólkið var á göngu inn eftir vatninu þar sem landið hallaði niður að klettabrún ofan vatns. Öðru þeirra hafði skrikað fótur í lausum jarðvegi og fallið á grúfu, þar sem stutt var fram á klettabrún og milli 10 og 15 metra fall niður klettana.

Svo laust var undir þeim að þau treystu sér ekki til að hreyfa sig úr stað án aðstoðar.

Björgunarsveitin fór á staðinn með fjallabjörgunarbúnað, setti upp tryggingar fyrir línu og fetaði björgunarmaður sig í línu niður til þeirra.

Björgunarlykkju var komið á konuna, sem lá á grúfu með örlitla handfestu og hafði hún smá fótfestu, annars rynni hún af stað.

Þau voru tekin upp í línu á öruggan stað og fengu svo far með lögreglu að bíl þeirra. Þeim varð ekki meint af, en ljóst er þarna stóð tæpt að illa færi, segir í tilkynningu frá Landsbjörg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×