Innlent

Ólög­mæt gjald­taka gæti kostað ríkið milljarða

Bjarki Sigurðsson skrifar
Vilhjálmur Þ. Á. Vilhjálmsson er hæstaréttarlögmaður.
Vilhjálmur Þ. Á. Vilhjálmsson er hæstaréttarlögmaður. Vísir/Vilhelm

Lögmaður telur ríkið hafa bakað sér milljarða skaðabótakröfu þar sem lög um olíugjald brjóti í bága við stjórnarskrá. Hann vinnur nú að lögsókn vegna gjaldtöku síðustu fjögurra ára. 

Frá árinu 2004 þegar lög um olíu- og kílómetragjald vegna þungaflutninga voru sett hefur verið vísað til reglugerðar ráðherra varðandi ýmsa þætti við innheimtu gjaldsins. Til að mynda er ráðherra heimilt að ákvarða hvaða ökutæki falla undir gjaldið.

Alþingi verður að ákvarða skattheimtu

Vilhjálmur Þ. Á. Vilhjálmsson, hæstaréttarlögmaður, telur þetta ólöglegt. Samkvæmt stjórnarskrá sé ráðherra ekki heimilt að hafa neitt með skattheimtu að gera en lagaramminn sé þannig að ráðherra geti breytt hverjir greiða gjaldið.

„Ekki nema að það séu mjög skýr viðmið í lögunum um það hvernig ráðherra eigi að haga sér við setningu slíkra reglna. En svo er ekki. Það eru engin viðmið,“ segir Vilhjálmur. „Ráðherra má ekki að ákveða fjárhæðina eða hver greiðir, það má ekki.“

6,8 milljarðar í endurkröfur

Vilhjálmur hefur verið að setja sig í samband við þá sem hafa greitt þetta gjald þar sem hann telur ríkið vera skaðabótaskylt.

„Þeir aðilar sem hafa ofgreitt skatt eiga endurkröfu á ríkið. Þær kröfur reyndar fyrnast á fjórum árum. En þetta er held ég 1,7 milljarður á ári sem ríkið hefur í tekjur af þessu. Á fjórum árum eru það 6,8 milljarðar. Þannig hver og einn aðili sem hefur greitt þetta gjald þarf að gera kröfu til þess að dráttarvextir byrji að tikka. Svo sjá dómstólar um að koma með endanlegan úrskurð hvað þetta varðar en þetta eru verulegir hagsmunir, það er alveg ljóst,“ segir Vilhjálmur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×