Íslenski boltinn

„Tanaður Lárus Orri mættur á svæðið“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Atli Viðar Björnsson og Albert Brynjar Ingason voru ekki sammála í gær.
Atli Viðar Björnsson og Albert Brynjar Ingason voru ekki sammála í gær. S2 Sport

Atli Viðar Björnsson og Albert Brynjar Ingason voru sérfræðingar Stúkunnar í gær og fóru meðal annars yfir atvik þar sem HK-ingar vildu fá vítaspyrnu í leik sínum á móti Fylki.

Stefán Árni Pálsson, umsjónarmaður Stúkunnar í gær, sýndi atvikið og spurði hvort að þetta væri víti. Staðan var þarna 2-0 fyrir Fylki og seinni hálfleikur nýhafinn. Víti þarna hefði breytt miklu.

„Á þessa hendi þarna? Aldrei víti, aldrei nokkurn tímann,“ svaraði Atli Viðar.

„Hendin er í eðlilegri stöðu út frá líkamanum þarna. Það verður flikk af skotinu, smá snerting þarna,“ sagði Atli.

Menn voru hins vegar ekki einróma í sérfræðingahópnum.

„Ég er Fylkismaður og allt það en ég er ekki alveg sammála því að hendin sé í eðlilegri stöðu. Mér finnst eins og Aron (Snær Guðbjörnsson) setji hendina aðeins niður,“ sagði Albert Brynjar.

„Til að gera hvað? Til að stoppa boltann? Eftir þetta flikk sem gerist einum og hálfum metra frá heldur þú að hann hafi tíma til að setja hendina út til að stoppa boltann,“ sagði Atli.

„Viðbrögð, viðbrögð. Hann er ekki með hendina á eðlilegum stað. Tanaður Lárus Orri mættur á svæðið,“ skaut Albert síðan á kollega sinn og fékk hlátur að launum. Þeir sem hafa fylgst með Stúkunni þekkja það vel þegar þeir Albert Brynjar og Lárus Orri Sigurðsson eru ekki alveg sammála.

Það má sjá atvikið og umræðuna hér fyrir neðan.

Klippa: Stúkan: Umræða um vítið sem HK fékk ekki á móti Fylki



Fleiri fréttir

Sjá meira


×