Erlent

Trump lofar að út­rýma mót­mælum til stuðnings Palestínu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Donald Trump var viðstaddur NASCAR Coca-Cola 600 kappaksturinn á sunnudag.
Donald Trump var viðstaddur NASCAR Coca-Cola 600 kappaksturinn á sunnudag. AP/Chris Seward

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, sagðist myndu útrýma mótmælum til stuðnings Palestínumönnum á háskólalóðum landsins ef hann snýr aftur í Hvíta húsið.

Ummælin lét Trump falla þegar hann ávarpaði hóp efnaðra stuðningsmanna í New York fyrr í maí.

Trump sagði mótmælin gegn hernaðaraðgerðum Ísrael á Gasa þátt í „róttækri byltingu“ og hét því að færa hana aftur um 25 til 30 ár ef viðstaddir aðstoðuðu hann til að ná kjöri. Þá sagðist hann myndu tryggja að erlendir nemar sem tækju þátt yrðu sendir heim.

Hingað til hefur Trump veigrað sér við því að taka einarða afstöðu gagnvart átökunum á Gasa en á fundinum sagðist hann styðja rétt Ísrael til að berjast gegn hryðjuverkum. Hann hefur áður sagt að Ísrael sé að „tapa áróðursstíðinu“ með aðgerðum sínum.

Trump gantaðist með það á fundinum að þar væru samankomnir 98 prósent vina hans sem væru gyðingar en hann minntist ekki orði á Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, sem hann hefur ekki rætt við frá því að síðarnefndi viðurkenndi sigur Joe Biden í forsetakosningunum 2020.

Sjálfur tók Trump umdeildar ákvarðanir varðandi Ísrael í forsetatíð sinni, meðal annars að flytja sendiráð Bandaríkjanna frá Tel Aviv til Jerúsalem.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×