Innlent

Pétur Jökull á­kærður í stóra kókaínmálinu

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Pétur Jökull var eftirlýstur af Interpol vegna tengsla hans við málið fyrr á árinu.
Pétur Jökull var eftirlýstur af Interpol vegna tengsla hans við málið fyrr á árinu. Vísir/Vilhelm

Héraðssaksóknari gaf í dag út ákæru á hendur Pétri Jökli Jónassyni fyrir aðild að innflutningi á nærri hundrað kílóum af kókaíni til landsins fyrir tveimur árum síðan. Fjórir hafa þegar verið dæmdir í þessu svokallaða stóra kókaínmáli sem er stærsta kókaínmál Íslandssögunnar.

Ríkisútvarpið greindi frá. Pétur Jökull var eftirlýstur af Interpol fyrr á árinu og kom sjálfviljugur til landsins í lok febrúar. Hann var áður dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar árið 2010 fyrir smygl á 1,6 kílóum af kókaíni frá Alicante á Spáni til landsins. Þá var hann líka dæmdur í fimm mánaða fangelsi árið 2011 fyrir rán.

Í byrjun ágúst 2022 lagði lögregla hald á tæplega hundrað kíló af kókaíni sem falið hafði verið í timbursendingu til Hollands frá Brasilíu og átti þaðan að halda áfram á áfangastað á Íslandi. Þeir fjórir menn sem dæmdir voru vegna málsins hlutu dóma upp á fimm til níu ár. Ljóst var þó fleiri hefðu komið að skipulagningu innflutningsins.

Mennirnir fjórir sem ákærðir voru árið 2022 játuðu allir þátttöku sína en sögðust hafa átt veigalítinn þátt í málinu. Í skýrslutökum lögreglu sögðust þeir allir hafa farið eftir fyrirmælum manns sem kallaði sig ýmist Nonna, Harry eða Trucker á dulkóðuðum samskiptaforritum sem mennirnir notuðu. Pétur Jökull hefur í skýrslutökum neitað sök og hafnað því að hann sé hinn umtalaði Nonni.

Fram kom fyrr í mánuðinum að lögreglan hefði rakið ferðir Péturs til Brasilíu um það leyti sem gámurinn sem flutti kókaínið fór af stað. Hann gaf skýringar á Brasilíudvöl sinni en lögregla taldi þær ótrúverðugar.

Ekki liggur fyrir hvenær ákæran á hendur Pétri Jökli verður þingfest né hvenær aðalmeðferð fer fram.


Tengdar fréttir

Sáu ekki andlit huldumanns sem þeir telja vera Pétur Jökul

Pétur Jökull Jónasson neitar sök í stóra kókaínmálinu svokallaða. Hann vill ekki tjá sig um gögn lögreglu í málinu sem varða til dæmis staðsetningar á farsímum, ferðalög milli landa, tengsl hans við aðra sakborninga.

Stóra kókaínmálinu hvergi nærri lokið

Pétur Jökull Jónsson, sem grunaður er um aðild að stóra kókaínmálinu og var eftirlýstur af Interpol á dögunum, hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald næstu fjórar vikurnar.

Lýst eftir ís­lenskum karl­manni á vef Inter­pol

Lýst er eftir Stefáni Ingimar Koeppen Brynjarssyni, íslenskum karlmanni á vef alþjóðalögreglunnar Interpol. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vekur athygli á þessu á Facebook síðu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×