Fótbolti

Var spáð falli en eru á leið í Meistaradeildina

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Brest er á leið í Meistaradeild Evrópu þrátt fyrir að hafa verið spáð falli.
Brest er á leið í Meistaradeild Evrópu þrátt fyrir að hafa verið spáð falli. Jean Catuffe/Getty Images

Óhætt er að segja að franska liðið Brest, eða Stade Brestois 29, geri tilkall til þess að vera kallað spútniklið Evrópu eftir ótrúlegt tímabil í Ligue 1 í vetur.

Fyrir tímabilið var Brest spáð falli, enda leikur liðið á næstminnsta velli deildarinnar og launakostnaður félagsins nemur um 5 prósentum þess sem franska stórveldið PSG greiðir.

Þrátt fyrir það er liðinu nú þegar búið að takast að tryggja sér í það minnsta fjórða sæti deildarinnar og sæti í forkeppni Meistaradeildar Evrópu þegar ein umferð er eftir af tímabilinu.

Liðið situr í fjórða sæti deildarinnar og á enn möguleika á því að koma sér upp fyrir Hákon Arnar Haraldsson og félaga hans í Lille með sigri í lokaumferðinni gegn Tolouse. Til Brest takist að stela þriðja sætinu, og þar með beinu sæti í Meistaradeild Evrópu, þarf liðið að ná í betri úrslit en Lille, sem mætir Nice, í lokaumferðinni.

Það sem gerir árangur Brest enn áhugaverðari er að besti árangur liðsins í deildinni frá upphafi er áttunda sæti, en liðið náði þeim árangri fyrir tæpum 40 árum.

„Evrópukeppni? Já, við munum spila í Meistaradeildinni á næsta tímabili. Við sögðum frá því fyrir tímabilið og við erum á réttri leið,“ grínaðist þjálfarinn Eric Roy eftir fyrstu tvo sigra tímabilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×