Fótbolti

Bæjarar skoði að ráða ten Hag

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ten Hag er í nokkuð heitu sæti í Manchester en þrátt fyrir það orðaður við Bayern München.
Ten Hag er í nokkuð heitu sæti í Manchester en þrátt fyrir það orðaður við Bayern München. Ryan Jenkinson/MB Media/Getty Images

Bayern München hefur spurst fyrir um Hollendinginn Erik ten Hag, með það fyrir augum að hann taki við félaginu í sumar. Sá hollenski vill ekki ræða málin fyrr en núverandi leiktíð er lokið.

Melissa Reddy á Sky Sports greinir frá þessu á samfélagsmiðlinum X. Ten Hag hefur átt misjöfnu gengi að fagna sem stjóri Manchester United og eru skiptar skoðanir um kauða á meðal stuðningsmanna félagsins.

Hann er þrátt fyrir það á lista hjá Bayern München sem þurfa að endurskoða leit sína að knattspyrnustjóra eftir höfnun Þjóðverjans Ralf Rangnick, sem félagið vildi fá í starfið. Áður hafði Spánverjinn Xabi Alonso sagt nei við þýska stórveldið.

Ten Hag er sagður einbeittur á að klára yfirstandandi leiktíð áður en hann skoðar næstu skref. Manchester United á fyrir höndum bikarúrslitaleik í lok mánaðarins.

Hann hefur áður starfað hjá Bayern en hann var þjálfari varaliðs félagsins frá 2013 til 2015. Í kjölfarið tók hann við Utrecht í heimalandinu og gerði svo góða hluti með Ajax frá 2017 til ársins 2022 þegar hann fluttist til Manchester.

Manchester United situr í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar en getur stokkið upp í það sjötta, sigri liðið Crystal Palace í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×