Innlent

Sló til starfs­manns og beit við­skipta­vin

Rafn Ágúst Ragnarsson og Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifa
Fjöldi fólks fylgdist með ólátunum.
Fjöldi fólks fylgdist með ólátunum. Vísir/Egill

Lögregla var kölluð út til verslunar Krónunnar í Skeifunni um klukkan fjögur síðdegis eftir að maður hafði slegið til starfsmanns verslunarinnar sem meinaði honum aðgang að búðinni, auk þess að hafa bitið annan viðskiptavin. 

Mbl.is greinir frá því að fjöldi fólks hafi fylgst með látunum eftir að honum var meinaður aðgangur. Eftir að slegið var til starfsmannsins hlupu aðrir, starfsmenn og viðskiptavinir, og þeir yfirbuguðu manninn.

Þá kom lögregla á vettvang sem handtóku manninn.

Jón Magnús Arnarsson varð vitni af atvikinu og útskýrir tildrög þess í samtali við fréttastofu. Hann hafi verið að ljúka við að kaupa inn þegar hann sá að til átaka hafi komið milli starfsmanns og manns sem hefði gerst uppvís að því að stela. Það hafi endað með því að starfsmaðurinn hélt manninum niðri. 

Starfsmaðurinn hafi sagt honum að hann skyldi sleppa honum róaði hann sig niður. Það hafi ekki dugað til og maðurinn hafi ráðist að starfsmanninum um leið og honum var sleppt. 

„Og hann byrjar bara að kýla hann á fullu,“ segir Jón Magnús og að þegar hann hafi sjálfur komið nær hafi hann séð að maðurinn væri að kýla hann með lyklakippu. Þá hafi hann stokkið til og gripið í hendina á manninum. 

Í kjölfarið hafi maðurinn bitið hann í handarkrikann. „Og heldur bara, eins og hundur. Hann bara beit, og beit fastar og fastar og fastar,“ segir Jón Magnús. 

Loks hafi þeir með hjálp tveggja annarra starfsmanna haldið honum niðri meðan þeir biðu eftir lögreglu, sem síðan handtók hann.  

Lögregla kom á vettvang og handtók manninn.Vísir/Egill

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×