Skoðun

Nú getum við brotið blað

Ragnheiður Davíðsdóttir skrifar

Nú stöndum við frammi fyrir því að kjósa forseta - að minnsta kosti til næstu fjögurra ára. Kosningabaráttan stendur sem hæst og þá fer að bera á alls konar ófrægingarorðræðu sem beinist aðallega gegn þeim sem best standa að vígi, skv. skoðanakönnunum. Þá fer ekki hjá því að mér verði hugsað til forsetakosninganna 1980 þegar við, sem studdum Vigdísi Finnbogadóttur, upplifðum. Þá var ég starfandi í lögreglunni og fékk daglega að heyra upplognar kjaftasögur um minn frambjóðanda. Þessar sögusagnir voru auðvitað uppspuni frá rótum.

Vigdís var kosin forseti Íslands og þá gerðist það ótrúlega. Þeir sem hæst höfðu bugtuðu sig og beygðu fyrir nýjum forseta. Sjálf var ég send til að standa í öllum dyrum og gefa “honnor” fyrir nýjum forseta - þeim hinum sama og hafði mátt sæta illvígum óhróðri frá vinnuveitendum mínum. Enginn efast í dag um þau stórkostlegu áhrif sem Vigdís hafði - ekki bara hérlendis - heldur líka á alheimsvísu.

Ísland mun njóta alheimsathygli verði það raunin

Nú stöndum við frammi fyrir því að kjósa forseta sem getur brotið blað í sögunni; frambjóðanda sem er fyrsti samkynhneigði forsetinn sem er lýðræðislega kosinn. Verði það raunin, mun Ísland aftur njóta alheimsathygli og verða fremst meðal jafningja í réttindabaráttu hinsegin fólks. Og það sem meira er - einstaklingur sem þekkir stjórnkerfi Íslands í þaula. Hvað er hægt að biðja um meira?

Þess vegna segi ég: Í boði er Baldur Þórhallsson, vel giftur maður með yfirburða þekkingu á stjórnskipun Íslands sem er svo lánsamur að eiga mjög hæfileikaríkan maka sem er tilbúinn að vinna að málefnum barna og unglinga. Í guðanna bænum látið ekki óhróður og illmælgi hafa áhrif á skoðanir ykkar. Kjósið með hjartanu í kjörklefanum.

Höfundur er fyrrum lögreglumaður og forvarnarfulltrúi og sat i kosningateymi Vigdísar Finnbogadóttur árið 1980.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×