Erlent

Rostungur sem fannst í fyrra drapst af völdum fugla­flensu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Rostungur á Svalbarða.
Rostungur á Svalbarða. Getty/Universal Images/UCG/Giovanni Mereghetti

Rostungur sem fannst dauður á norsku eyjunni Hopen í fyrra er talinn hafa drepist af völdum fuglaflensu. Um er að ræða fyrsta rostunginn sem drepst af völdum veirunnar.

Sýnið sem tekið var úr dýrinu og greint í Þýskalandi var of lítið til að hægt væri að greina hvort um væri að ræða H5N1 eða H5N8.

Sex rostungar fundust dauðir á Svalbarða í fyrra og Guardian hefur eftir Christian Lydersen, hjá Norsku heimskautastofnuninni, að ekki sé hægt að útiloka að þeir hafi drepist af völdum fuglaflensu.

Fregnir hafa þegar borist af því að selir og sæljón hafi drepist af völdum veirunnar. 

Lydersen segir mikilvægt að fylgjast með þróun mála þar sem rostungar hópast saman á sumrin. Þá sé ekki útilokað að veiran gæti borist í ísbirni, ef þeir leggja sér smituð rostungshræ til munns.

Að minnsta kosti einn ísbjörn hefur drepist af völdum fuglaflensuveiru, í Alaska.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×