Innlent

„Breið­holt mesta fá­tæktar­gildra landsins“

Jakob Bjarnar skrifar
Brynjar Karl segir stjórnsýsluna í molum og ástandið í Breiðholti er komið á það stig að öll rauð ljós ættu að blikka.
Brynjar Karl segir stjórnsýsluna í molum og ástandið í Breiðholti er komið á það stig að öll rauð ljós ættu að blikka. vísir/hulda margrét

Brynjar Karl Sigurðsson er einn eftirtektarverðasti þjálfari landsins. Og um leið sá umdeildasti. Brynjar Karl þjálfar kvennalið í körfubolta – Aþenu – sem nú berst um sæti í úrvalsdeild.

Aþena lagði KR í úrslitaleik um sæti í úrslitaeinvígi 1. deildar kvenna á mánudagskvöld í Austurbergi. 

„Við vorum minna lélegar en þær,“ segir Brynjar Karl. Aþena fær Tindastól í hausinn næst. „Breiðholt á móti Skagafjarðarmafíunni. Það byrjar á föstudaginn og gæti orðið eitthvað. Þetta hangir á bláþræði.“

En körfuboltinn er nánast átylla fyrir því að Vísir vildi heyra í Brynjari Karli. Hann hefur sterkar skoðanir á stöðu mála í Breiðholti. Hann er umbúðalaus í tali, jafnvel svo að ástæða getur verið til að vara viðkvæmar sálir við orðfærinu. Nei annars. Það hljóta flestir að þola þetta.

Sjálfur býr hann í Garðabæ en þjálfar í Breiðholti.

„Þetta er á einhverju öðru „leveli“. Þú trúir þessu ekki. Það er að teiknast upp „Baby Malmö“ hérna. Ég er fimm mínútur að fara úr Garðabænum og hingað yfir og þetta er eins og vera lentur í ljósaskiptum. Ég er brjálaður út í mig og alla, að láta þetta drabbast svona niður. Þetta er ekki dýrt. Þetta eru ekki peningar. Heldur andvaraleysi. Og við erum á því stigi að láta sýkinguna verða til þess að það þurfi að aflima allan fótinn. Það verður ekkert hægt að gera þegar þetta er yfir ákveðið stig.“

Brynjar Karl segir mestu hindranirnar í sínu starfi vera borgina sjálfa; borgaryfirvöld og svo ríkisstjórn. Að ógleymdri íþróttamafíunni sem virki á einhverjum óræðum slóðum í stjórnsýslunni. Bara vegna þess að þau hafi byrjað Breiðholtsverkefnið illa og fái ekki opinbera viðurkenningu láti þau þetta drabbast. Allur hugsunarháttur borgaryfirvalda og þeirra einstaklinga sem þar eru miðist við fjögur ár. Kjörtímabilið.

„Ég hef verið í samskiptum við ráðherra sem fattaði svo að ég er óvinsæll, engin atkvæði að hafa og þá gat honum ekki staðið meira á sama. Þetta er viðbjóður.“

Brynjar Karl vill ekki upplýsa um hvaða tiltekni ráðherra þetta var enda skiptir það ekki öllu máli. Svo virðist sem allt siðvit hverfi eftir kosningar.

Íslendingar flýja Breiðholtið

Sennilega er vert að bakka aðeins. Eðvarð Hilmarsson grunnskólakennari ritaði í vikunni grein sem vakti mikla athygli en hún er undir dramatískri fyrirsögn: Breiðholt brennur. Þar gerir Eðvarð grein fyrir hinu alvarlega ástandi sem ríkir í Breiðholti. Börnin skilja ekki tungumálið og Íslendingar eru hreinlega að flýja hverfið.

„Grein Eðvarðs er vakning og mér hvatning til að taka til máls um stöðuna í gamla uppeldishverfi mínu og hverfinu þar sem ég og aðrir sjálfboðaliðar reka í dag íþróttafélagið Aþenu. Það sem Eðvarð segir eru engar ýkjur.“

Brynjar Karl segist nú sjá betur og betur að hverfið eigi sér vart viðreisnar von, litla möguleika á því að hefja upp virðingu sína á meðvitaðan hátt. Að öllu óbreyttu.

„Fólk með íslensku sem fyrsta tungumál er á harðahlaupum út úr 111 Reykjavík ef það á börn á grunnskóla aldri því það hreinlega treystir því ekki að barnið þeirra muni læra íslensku í skólanum og umhverfinu. Það þýðir að eftir stendur stór einsleitur hópur, um níutíu prósent, sem hefur ekkert að standa á þegar tungumálanotkun er annars vegar. Ávinningur fjölmenningarinnar snýst í andhverfu sína.“

Börnin föst í gildru

Brynjar Karl segir Íslendinga alveg einstaklega sjálfhverfa þjóð sem eigi vart möguleika á að læra af reynslu annarra þjóða. Þeir gefi sig út fyrir að búa í velferðarsamfélagi en sú velferð nái ekki til 111 að því leyti að gefa ungu fólki jöfn tækifæri til að auka virði sitt.

„Þetta sé ég á hverjum einasta degi. Eins og ég þekki íslenska menningu þá sýnist mér að skólayfirvöld og skólastjórnendur séu ekki þeir sem kalla fyrst, eldur-eldur, heldur reyna þeir frekar að tala upp það sem vel er gert til að styggja ekki stjórnvöld, tala ekki niður framtak sitt og kennara og rýra ekki meira virðingu hverfisins eða umhverfi barnanna sem nógu mikið lýða fyrir það hvar þau eiga heima.“

Stelpurnar í Aþenu eru líklega með skoðanaríkasta þjálfara sem um getur.vísir/hulda margrét

Hér sé um að ræða stæka meðvirkni og í raun yfirhylmingu. Kennarar og þjálfarar í hverfinu eru að sögn Brynjars Karls fljótir að finna að vald þeirra, skilningur og stuðningur til verka sé langt frá því að vera nægur til að snúa við þróuninni við.

„Margir þeirra sem ég hef rætt við hafa gefist upp, fæstum finnst gaman að spila með botnliðinu. Borgaryfirvöld keppast við leita að næsta átaksverkefni, til að bæta ímynd sína.“

Margir nýbúanna séu illa valdefldir og viti oft ekkert eða lítið um hvernig samfélagsefnið okkar sé ofið saman. Og þeir virðist ekki gera sér grein fyrir gildrunni sem þau séu í en fyrst og fremst séu þetta börnin sem lenda illa í því. Þeir hafi ekki dug eða þor í gera það sem þurfi. Það komi það fljótt niður á börnum.

Yfirgengileg vanræksla heils hverfis

Brynjar Karl segir að hunsunina rót alls ills. Hann er ekki að boða að einstaklingar eigi líta svo á að þeir eigi að þiggja allt frá hinu opinbera. Hann sé ekki að væla en það breyti engu um sviksemi og aumingjahátt kjörinna fulltrúa.

„Hólar, Fell og Bakkar eru hverfi sem lengi hafa verið vanrækt. Það eru engin ný tíðindi fyrir fyrrum íbúa Breiðholts að hverfið bjóði ekki upp á sömu tækifæri fyrir börn að auka virði sitt, eins og gerist í öðrum hverfum. Ég fullyrði að þessir hlutar Breiðholts eru mesta fátæktargildra landsins.“

Eðvarð Hilmarsson lýsir ástandinu sem skelfilegu innan kennslustofunnar. Aðallega vegna vanrækslu yfirvalda. Hvernig á að tala við 25 manna hóp nemenda þar sem hlutfall nemenda af erlendum uppruna er komið yfir 90 prósent? Utan kennslustofunnar taka svo sjálfboðaliðar eins og Brynjar Karl við.

„Einn ungur iðkandi með stöðu flóttamanns var sjónskertur og var alltaf að fá boltann í andlitið. Hann þurfti gleraugu. Öðru eins veseni hef ég ekki lent í, og ég sem á að heita körfuboltaþjálfari var leita leiða í kerfinu til þess eins að koma iðkandanum á það stig að geta stundað íþróttina.“

Hvert var eiginlega planið?

Brynjar Karl segist hafa velt fyrir sér hugmyndum stjórnvalda, þegar þau tóku að sér það mikilvæga verkefni að flytja flóttafólk til landsins.

„Var planið hreinlega það að jaðarsetja hópinn í fæðingu verkefnisins? Erum við í alvöru til í að spara eyrinn og henda krónunni?“ spyr Brynjar Karl ráðþrota.

„Erum við gegnsýrð í afstöðu okkar að henda vandamálunum á næstu stjórn og næstu kynslóð? Nokkrir iðkendur, eiga ekki fyrir æfingagjöldum, búningi, eða fá ekki stuðning til þess að fara í keppni út á land svo dæmi sé tekið. 

Brynjar segir fæsta leikmenn sína skilja íslensku. Þar er tungumálakennsla í molum og kennarar standa ráðþrota.aþena

Hver iðkandi útheimtir meiri vinnu utan vallar heldur en einn yngri flokkur samanlagt. Annar iðkandi af erlendum uppruna á enga stórfjölskyldu eða öryggisnet í nærumhverfinu á Íslandi. Hann tjáir mér að hann verði fyrir ofbeldi heima fyrir. Hver er ég að hafa áhyggjur af því að yfirvöld passi upp á krakkana?“

Brynjar Karl segir háðskur að auðvitað komi þetta honum ekki við. Hann sé bara körfuboltaþjálfari.

„Hin áskorunin í hverfinu gengur út á að ná til stærsta hóps krakkana í hverfinu sem í raun þurfa mest á því að halda að fá Aþenu-þjálfun. Mestu viðbrögðin sem við fáum þegar við göngum í öll hús í hverfinu með bæklinga á ensku er frá miðaldra Íslendingum sem búa í hverfinu og fussa og sveija yfir því að bæklingurinn sé á ensku. Ég spyr þá á hvaða tungumáli þú þarft að skrifa til að ná í mesta jaðarhópinn og bíð þeim svo að koma og taka að sér útbreiðslustarfið? Það hefur enginn af þeim mætt.“

Yfirvöld vilja sem minnst vita af ástandinu

Brynjar Karl er reynslumikill þjálfari, og þegar hann var við þjálfarastörf í Garðabæ hafi mikill tími farið í að koma vitinu fyrir tilætlunarsama og þroskastelandi foreldra um þátttöku barna þeirra í íþróttinni.

„Áhorfendapallarnir voru alltaf þétt skipaðir af fólki sem vissi allt um barnauppeldi og íþróttaþjálfun. Þessu er öfugt farið í 111 Reykjavík, ekki miklar kröfur og meira afskiptaleysi. Við getum gleymt því að þjálfa alla Aþenukrakka bara á íslensku. Við erum með krakka sem hafa búið á íslandi alla tíð og geta ekki tekið samtal bara á íslensku við mig. Ég er með börn flóttafólks sem hefur búið á Íslandi í fimm ár og talar ekki íslensku.“

Barátta Brynjars Karls við íþróttayfirvöld séu svo sérkapítuli út af fyrir sig. Hann segir Aþenu hafa ákveðið að sækja um að nota sal sem sé ekki notaður af neinum í íþróttahúsinu. 

„Já, til þess að vera með heimanám og heimspekikennslu í tengslum við þjálfunina og þar á meðal bæta upp íslenskuleysið og vera svarhæf og partur af lausninni sem við sjáum svo glöggt. Til þess að teikna upp mestu áskorunina og mótspyrnuna sem að hópur sjálfboðaliða í Aþenu stendur frammi fyrir þá er það tregða borgaryfirvalda. Samtalið fæst ekki nema með leiðindum, hótunum eða mikilli mótþróastreituröskun, sem fólk getur svo deilt um hversu gott veganesti það er samstarfi.“

Ömurlegir fundir með fyrrverandi borgarstjóra

Aþena var stofnuð þann 19. júní 2019 og frá þeim tíma hefur Brynjar Karl orðið vitni að ótrúlegu getuleysi borgaryfirvalda í að takast á við málefni Efra-Breiðholts.

„Það væri betra ef óvirknina mætti rekja til vanþekkingar, en svo er ekki. Stundum ræðir borgin um vandamálin og í kringum kosningar reynir borgarstjórnin að framreiða tölfræði og framsögu sem á að sýna að hún hafi tök á vandanum. Ég hef átt ömurlegustu fundi á ferlinum með fyrrverandi borgarstjóra þar sem ég gerði heiðarlega tilraun til að fara réttu boðleiðina í þessum efnum.“

Brynjar segir stjórnsýsluna í molum og það sé engu líkara en allt siðvit hverfi úr kjörnum fulltrúum eftir kosningar. Verst eru þó íþróttayfirvöld, sem starfa á einhverju óræðu svæði og enginn beri þar ábyrgð.vísir/helga margrét

Stjórnsýslan borgarinnar sé í molum, skiptist í mörg svið og deildir sem virðist ekki vinna að sameiginlegum markmiðum né að það sé áríðandi að leysa málefni Efra-Breiðholts.

„Þessar deildir, ef þær hafa ekki áhuga á þér, senda þig síendurtekið í hringekjurnar sínar sem leiða hvergi. Þér er stöðugt vísað á milli deilda þar til þú ert aftur á byrjunarreit. Þegar Aþena var stofnuð reyndum við að fá tíma í Fellaskóla. Við fundum lausa tíma í skólanum og bentum ÍBR (Frekjubandalagi íþróttafélaga í Reykjavík) á þá. Svar barst seint og var neikvætt, þar sem „því miður getum við ekki orðið að beiðni ykkar því ÍR, sem er hverfafélag í Fella- og Hólahverfi, hefur einkaleyfi á hverfinu með körfuknattleik.“

Íþróttayfirvöld sverja sig í ætt við mafíu

Við nánari athugun kom í ljós að af um það bil 350 börnum sem voru skráð í parketgreinar (handbolta og körfubolta) hjá ÍR, voru aðeins 25 á yfirráðasvæði ÍR 111 Reykjavík sem er helmingur af „ÍR-hverfinu“ og Fellskóli tilheyrir.

„Stóru íþróttafélögin í Reykjavík starfa öll í einkaleyfisvörðum póstnúmerum, sem eru gömul samantekin ráð félaganna. Fæstir vita af þessu samkomulagi né skilja ástæður öðruvísi en tryggja samkeppnisleysi. Mér er minnistætt þegar ég hitti framkvæmdastjóra ÍBR fyrir mörgum árum og spurði hann hvort honum fyndist heilbrigt að vera með einokun á þjónustu í annars kapítalísku umhverfi á Íslandi; hvort það þjónaði hagsmunum neytenda? Ég býð enn eftir svari sem hæfir sænska Seðlabankanum þegar hann gefur sín nóbelsverðlaun í hagfræði.“

Barátta Brynjars Karls við íþróttayfirvöld, sem hann kallar mafíu, er löng og ströng. Hann segir það sína bjargföstu trú að íþróttir eins og þær eru lagðar upp hjá Aþenu sé frábær leið til að tækla skort á virðisaukandi starfsemi fyrir mörg börnin í 111 Reykjavík.

„Það er eina ástæðan fyrir stofnun Aþenu. Það er alveg efni í nýtt viðtal að fjalla um menninguna sem tíðkast í mörgum íþróttafélögum á Stór-Reykjavíkursvæðinu. En sú menning er stór þáttur af íslensku samfélagi, er langt frá til þess fallin að koma til móts við þarfir jaðarsettra hópa sem þurfa nauðsynlega virðisaukningu. Því er miður því þar er stærsta tækifærið okkar í dag ef rétt er á málum haldið.“

Ekki hrifnir af stemmningunni í 111

Brynjari Karli verður heitt í hamsi þegar íþróttafélögin á höfuðborgarsvæðinu koma til tals, hann segir þau verða óvægin ef einhver reynir að bjóða upp á þjónustu í samkeppni við þann sem nýtur einkaleyfis, eins og hann orðar það.

„Það er auðvelt að deila um kosti og galla þessara einkaleyfisreglna, en í 111 Reykjavík er ljóst að íþróttahúsið við Austurberg var ekki nýtt af börnunum í hverfinu. Árið 2019, þegar ég starfaði hjá ÍR, ræddi ég við stjórnarmann um af hverju körfuboltinn væri ekki á dagskrá í Efra-Breiðholti 111 Reykjavík Austurbergi?“ segir Brynjar.

„Mér var sagt að ef körfubolti yrði iðkaður þar gæti handboltinn krafist aðgangs að íþróttahúsinu við Seljaskóla 109. Sem ekki þótti æskilegt þar sem sumir í körfunni voru ekki hrifnir af „stemningunni“ í 111 Reykjavík. Þessi viðhorf eru áberandi á meðal ÍR-inga og þróunin í 111 Reykjavík hefur að hluta til gerst á þeirri vakt.“

Brynjar Karl útskýrir í alllöngu máli hvernig Aþena komst með brögðum í Austurberg til að æfa.

„Mín niðurstaða er sú að hverfafélög eru ekki góð hugmynd í hverfi eins og Breiðholti, þar sem stigsmunur er á þjóðerni og innkomu íbúa eftir póstnúmeri. Í lýðræðisríki eigum við hlýða hinu réttmæta yfirvaldi, ef hið réttmæta yfirvald er ekki réttlæti hins sterka heldur réttmætt yfirvald og endurómur þeirrar raddar sem hljómar veikast og með mestri hógværð í samfélaginu, sem er sannarlega raunin með íbúa í Efra-Breiðholti. En pólitíkusar vita að áherslan á ekki að vera á hverfi sem hefur lága kosningaþátttöku.“

Snýst ekki um sálarlausa miðstýringu

Yfirvöld bendi á slæma tölfræði þátttöku barna í Breiðholti en það segir Brynjar Karl lið í því að koma skömminni yfir á jaðarhópinn. Þessu hefur hann fylgst með í áratugi.

„Fyrsta minning mín af lausn í þessum málum varðandi þátttöku nýbúa var að þeir bara hreinlega skildu ekki íslensku og var lögð orka í að þýða upplýsingar á algengustu tungumál sem töluð eru í hverfinu. Þegar það hafði engin áhrif var mín næsta minning af átaksverkefnum í hverfinu TUFF The Unity of Faith Foundation.“

Til að gera langa sögu stutta, þá hefur ekki heyrst múkk af árangri af þessu verkefni né starfsemi þess í dag. Síðustu upplýsingar af átaksverkefnum í Breiðholti voru í fyrra þegar borgin taldi sig hafa gert stórkostlega uppgötvun og spurði fólkið í hverfinu hvaða íþróttir það hefði áhuga á að stunda, Kung Fu, Blak og Bandý.

„Ég er handviss um að þessar greinar hefðu orðið vinsælar ef einhver hefði pælt í því að finna góða þjálfara. En það er jú þar sem hnífurinn stendur í kúnni. 

Stígvél á jörðinni er lykilatriði þegar kemur að því að efla æskulýðsstarf en ekki sálarlaus miðstýrð stefna einhverra stofnana. Vandamálið er bara eins og í mörgum velferðarþjóðfélögum að það er búið að ríkisvæða ósérplægni og almenningur í sinni fullkomnu siðferðilegu leyfisveitingu telur skatta sína vinna góðverkin fyrir sig.“

Valdastéttin græðir ekkert á því að bregðast við

Að sögn Brynjars Karls er það alveg á hreinu, hvað sem öðru líður, og að það viti þeir sem hafa komið að þjálfun og verið á gólfinu, að krökkum er að mestu leyti sama hvaða íþrótt er verið að stunda ef það er ástríða og áhugi á bak við iðkunina.

„Ekkert kerfi getur komið í staðinn fyrir ástríðufullt fólk sem keyrir áfram verkefnin, sinnir krökkunum og er til í að mæta á gólfið dag eftir dag. Það eru engin kerfi, plaköt eða sendiherrar eða sjálf íþróttagreinin sem lætur galdurinn gerast,“ segir Brynjar og það ætti ekki að velkjast fyrir neinum hvar hægt er að staðsetja hann sjálfan á því korti.

„Það sem er rangt er að þrátt fyrir að þú náir árangri og byggir upp litla deild frá engu upp í fullt starf á mettíma á einum vetri, eins og við hjá Aþenu gerðum í fyrra með 15 klukkustundum í umræðu í íþróttahúsinu Austurbergi, þá hefur borgin engan áhuga á að tala við þig. Þú kemst ekki á radarinn því þú ert ekki partur af valdastéttinni eða elítunni og ef þú starfar á svæði með lága kosningaþátttöku, eða bara ef þeir sem ráða eiga ekki hugmyndina eða fá ekki nóg kredit, þá hefur borgin engan áhuga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×