Erlent

Rallýbíll ók á á­horf­endur á Sri Lanka

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Keppnin var skipulögð af hernum á Sri Lanka og mættu um 100 þúsund á viðburðinn.
Keppnin var skipulögð af hernum á Sri Lanka og mættu um 100 þúsund á viðburðinn. AP Photo/STR

Sjö eru látnir og tuttugu og einn slasaður eftir að rallýbíll ók inn í hóp áhorfenda á kappaksturskeppni á Sri Lanka í gær.

Á meðal hinna látnu voru fjórir starfsmenn mótsins auk þriggja áhorfenda og er átta ára gömul stúlka sögð þar á meðal.

Óljóst er hvort ökumann rallýbílsins hafi sakað, eða hvort hann verði ákærður fyrir gáleysislegan akstur en svo virðist sem öðrum bíl hafi verið velt rétt áður og voru starfsmenn keppninnar að reyna að hægja á hinum bílunum til að afstýra slysi.

Fimm létust samstundis og tveir eftir komu á spítala og nokkrir aðrir eru í alvarlegu ástandi á sjúkrahúsi. Ókeypis var á keppnina og er talið að um hundrað þúsund manns hafi mætt á viðburðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×