Körfubolti

Vonar að trúin sé enn til staðar á Sauð­ár­króki

Aron Guðmundsson skrifar
Pétur Rúnar (til hægri) er einn af burðarásunum í liði ríkjandi Íslandsmeistara Tindastóls sem þurfa alvöru frammistöðu gegn Grindavík í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Subway deildar karla
Pétur Rúnar (til hægri) er einn af burðarásunum í liði ríkjandi Íslandsmeistara Tindastóls sem þurfa alvöru frammistöðu gegn Grindavík í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Subway deildar karla Vísir/ Hulda Margrét

Ís­lands­meistarar Tinda­stóls þurfa að verja vígi sitt er liðið tekur á móti Grinda­vík í Síkinu í kvöld í öðrum leik liðanna í átta liða úr­slitum Subway deildar karla í körfu­bolta. Stólarnir mæta til leiks eftir dapra frammi­stöðu í fyrsta leik. Á heima­velli sem hefur ekki reynst eins gjöfull og undan­farin tíma­bil.

Pétur Rúnar Birgis­son, leik­maður Tinda­stóls hefur trú á því að liðið geti snúið genginu við og treystir því að fólk hafi enn trú á Ís­lands­meisturunum.

„Það er til­hlökkun í mann­skapnum fyrir því að spila fyrsta leikinn í úr­slita­keppni á heima­velli á þessu tíma­bili,“ segir Pétur Rúnar í sam­tali við Vísi. „Við erum stað­ráðnir í því að gera betur en í síðasta leik. Staðan er bara þannig að við þurfum að stimpla okkur af krafti inn í þessa úr­slita­keppni.“

„Við erum búnir að fara vel yfir síðasta leik. Hvað fór úr­skeiðis þar og hvað var gott í okkar leik, þrátt fyrir að það góða hafi kannski ekki verið mikið. Við ætlum okkur að gera betur og mæta af krafti og hörku í þennan leik á eftir. Við megum ekki leyfa þeim að líða eins vel og þeim leið í fyrsta leiknum. Þeir fengu bara að valsa um og gera allt sem að þeir vildu. Sama um hvern þeirra leik­manna var að ræða.

Basi­le og Kane löbbuðu fram hjá okkur í átt að körfunni. Julio og Mor­ten­sen rúlluðu að hringnum og svo voru menn að fá gal­opin skot fyrir utan líka. Við þurfum að gera margt betur varnar­lega en við sýndum í þessum fyrsta leik.“

Titil­vörn Tinda­stóls til þessa hefur ekki verið upp á marga fiska og líkt og bent er á í ítar­legri grein Óskars Ó­feigs um heima­völl liðsins, Síkið, þá hefur það vígi ekki reynst eins gjöfult og undan­farin tíma­bil.

Pétur Rúnar hefur trú á því að heima­völlurinn geti gefið Stólunum fleiri góðar stundir og býst hann við mögnuðum stuðningi af pöllunum í kvöld til þess að hjálpa liðinu í sinni bar­áttu.

„Ég býst við því alla­vegana. Ég vona að fólk hafi enn trú á okkur, held það sé raunin. Það er bara okkar að leið­rétta þetta gengi sem hefur verið brös­ótt í vetur á heima­velli. Ég hef fulla trú á því að það breytist í kvöld.“

Leikur tvö í ein­vígi Tinda­stóls og Grinda­víkur í átta liða úr­slitum Subway deildar karla verður sýndur í beinni út­sendingu á Stöð 2 Sport og hefjum við leika þar klukkan sjö í kvöld. Strax að leik loknum tekur Subway körfu­bolta­kvöld svo við og fer yfir það helsta í beinni úr­sendingu frá Síkinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×