Erlent

Banda­ríkja­stjórn setur ferða­hömlur á sendi­full­trúa í Ísrael

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Bandarískum embættismönnum hefur verið sagt að ferðast ekki utan borgarmarka í Ísrael.
Bandarískum embættismönnum hefur verið sagt að ferðast ekki utan borgarmarka í Ísrael. Getty/Chris McGrath

Bandaríkjastjórn hefur sett ferðahömlur á bandaríska emættismenn í Ísrael en áhyggjur eru uppi um að Íranir geri árás á landið innan tíðar. 

Starfsmönnum sendiráðsins hefur verið sagt að ferðast ekki út fyrir borgarmörk Jerúsalem, Tel Aviv og Beersheba í ljósi ástandsins.

Íranir hafa hótað hefndum eftir að árás var gerð á sendiráð Írans í Sýrlandi á dögunum, þar sem þrettán létu lífið. Íranir saka Ísraela um árásina, sem hafa ekki lýst ábyrgðinni á hendur sér en flestir telja þá hafa verið á bak við hana. 

Íran styður við bakið á Hamas samtökunum á Gasa og einnig fleiri samtök líkt og Hezbollah í Líbanon sem ítrekað hafa gert árásir á Ísrael.

Joe Biden Bandaríkjaforseti varaði við stórri árás Íran á Ísrael í gær og ítrekaði stuðning Bandaríkjanna, þrátt fyrir gagnrýni á framgöngu ríkisstjórnar Benjamin Netanyahu varðandi Gasa.

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, er sagður hafa átt samtal við utanríkisráðherra Íran þar sem hann hvatti til stillingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×