Viðskipti innlent

Á­fram skerðingar vegna „fá­­dæma lé­­legs vatns­­árs“

Atli Ísleifsson skrifar
Hörður Arnarson er forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson er forstjóri Landsvirkjunar. Vísir/Vilhelm

Landsvirkjun mun skerða afhendingu raforku til viðskiptavina sinna, sem flokkast sem stórnotendur, lengur fram á vorið en vonast hafði verið til. Ástæðan er fádæma lélegt vatnsár þar sem gengið hefur hratt á uppistöðulón.

Frá þessu segir í tilkynningu frá Landsvirkjun. Kemur fram að ekki sé er útlit fyrir að staðan muni batna fyrr en hlýna taki og vorleysingar hefjist með vaxandi innrennsli á vatnasviðum Landsvirkjunar.

„Tíðarfar á liðnum vetri hefur verið miðlunarbúskap Landsvirkjunar einstaklega óhagstætt á öllum vatnasviðum. Kalt og þurrt hefur verið í vetur og rennsli á vatnasviðum Landsvirkjunar með því lægsta sem þekkist. Fyrir utan blota-kafla á Þjórsársvæði í mars hefur niðurdráttur verið eindreginn í öllum miðlunarlónum.

Miðlunarstaða í upphafi vors er með því lægsta sem sést hefur frá gangsetningu Fljótsdalsstöðvar og hefur Blöndulón til að mynda aldrei staðið eins lágt á þessum tíma árs,“ segir í tilkynningunni.

Skert frá byrjun desember

Landsvirkjun hóf að skerða afhendingu orku til stórnotenda á suðvesturhluta landsins undir lok síðasta árs. 

„Fyrst var gripið til skerðinga á afhendingu víkjandi orku til fiskimjölsverksmiðja og fiskþurrkana, auk gagnavera sem stunda rafmyntagröft. Því næst var afhending skert til stórnotenda, þ.e. Elkem, Norðuráls og Rio Tinto, sem og fjarvarmaveitna. Í febrúar var svo tilkynnt um skerðingar á norður- og austurhluta landsins en þær náðu til álvers Alcoa Fjarðaráls, kísilvers PCC Bakka, TDK aflþynnuverksmiðjunnar og atNorth gagnaversins.

Til að auka orkuöryggi heimila og smærri fyrirtækja breytti Landsvirkjun fyrirkomulagi sölu í heildsölu við upphaf skerðinga til að verjast óvissu um vatnsstöðu að vori. Salan hefur takmarkast við einn mánuð í senn og langtímasamningar hafa ekki verið í boði. Þetta fyrirkomulag verður óbreytt á meðan skerðingum stendur,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×