Viðskipti innlent

76 ára sögu Þor­steins Berg­manns lokið

Bjarki Sigurðsson skrifar
Árbæingar voru tíðir gestir í versluninni.
Árbæingar voru tíðir gestir í versluninni. Vísir/Vilhelm

Verslun Þorsteins Bergmanns við Hraunbæ í Árbænum hefur verið lokað. Verslunin hafði verið rekin þar síðan árið 1980 en fyrsta verslun Þorsteins Bergmanns var opnuð árið 1947. 

Síðustu ár hefur Helena Bergmann, dóttir Þorsteins stofnanda verslunarinnar, séð um reksturinn. Um tíma voru verslanirnar fjórar, ein í Hraunbænum, önnur á Laufásvegi, ein á Laugavegi og svo við Skólavörðustíg. Þeim þremur síðastnefndu hafði áður verið lokað og var verslunin í Hraunbæ síðasta hálmstráið. 

Helena Bergmann og eiginmaður hennar, Sveinbjörn Sveinbjörnsson.

„Ég greindist með mjög erfiðan sjúkdóm og læknarnir sögðu mér að loka og hætta. Það er erfitt en það er kannski kominn tími á þetta. Búinn að vera langur tími,“ segir Helena í samtali við fréttastofu.

Hún segir verslun almennt hafa breyst verulega mikið síðustu ár. Flestir versli nú mikið á netinu og fari minna út í búð. Fyrir nokkrum vikum var Helena með rýmingarsölu í versluninni. 

Búsáhaldaverslun Þorsteins Bergmanns var rekin í Hraunbæ 102b í 44 ár.Vísir/Vilhelm

„Það voru allir voða leiðir, en svona er þetta bara. Ekkert er eilíft. Kannski er gott að breyta til. Eiga sumarfrí og svona,“ segir Helena en hún hafði staðið vaktina í versluninni alla daga síðustu ár. 

Helena og fjölskylda eru eigendur húsnæðisins sem verslunin var rekin í en hún segir það eiga eftir að koma í ljós hvað kemur þar í staðinn. Hún segist ekki hafa viljað afhenda reksturinn einhverjum öðrum. 

„Þetta er bara svo mikið við fjölskyldan. Þetta er bara saga sem er búin,“ segir Helena. 

Þessi miði hangir við inngang verslunarinnar.Vísir/Vilhelm





Fleiri fréttir

Sjá meira


×